Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Lilja skipar nýja fjölmiðlanefnd

Lilja Alfreðsdóttir
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, hefur skipað nýja fjölmiðlanefnd til fjögurra ára. Formaður nefndarinnar er Einar Hugi Bjarnason, hæstaréttarlögmaður.

Fréttastofa greindi frá því í september að ný fjölmiðlanefnd hafi ekki verið skipuð þótt skipunartími þeirrar síðustu hafi runnið út um mánaðarmót ágúst og september. Fengust þau svör að beðið væri tilnefningar Blaðamannafélags Íslands en stjórn félagsins hafi þá fyrir nokkru síðan dregið sig út úr starfi nefndarinnar.

Þar af leiðandi var engin nefnd til staðar til að sinna lögbundnum verkefnum en starfsfólk sinnti sínu hlutverki og undirbjó ný mál til ákvörðunar nefndarinnar.

Á vef fjölmiðlanefndar kemur fram að ráðherra hafi nú skipað fjölmiðlanefnd til næstu fjögurra ára. Formaður hennar er Einar Hugi Bjarnason, skipaður af ráðherra án tilnefningar. Varaformaður er María Rún Bjarnadóttir sem er tilnefnd af hæstarétti. Auk þeirra sitja Finnur Beck, tilnefndur af hæstarétti, og Róbert H. Haraldsson, tilnefndur af samstarfsnefnd háskólastigsins, í nefndinni.

Skipunartímabil nefndarinnar er frá 1. september 2019 til 31. ágúst 2023.