Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lilja segir ummælin verða til ævarandi skammar

01.08.2019 - 17:52
Mynd með færslu
 Mynd:
„Í samræðum sínum á Klausturbarnum kom glöggt í ljós hvaða hug þingmennirnir bera til kvenna. Það var sannarlega dapurlegt. Enn dapurlegra er að þeir hinir sömu skuli nú, átta mánuðum síðar ekki enn sjá að sér heldur reyna að réttlæta ummæli sín. Leitt að þeir sjái ekki sóma sinn í að líta í eigin barm. Ummælin verða þeim til ævarandi skammar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í Facebook-færslu.

Forsætisnefnd féllst í dag á niðurstöðu siðanefndar Alþingis í máli nokkurra þingmanna Miðflokksins vegna háttsemi þeirra á Klaustur hinn 20. nóvember. Niðurstaðan er sú að Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson hafi gerst sekir um brot á siðareglum, en aðrir þingmenn sem staddir voru á barnum hafi ekki brotið þær. 

Á barnum voru meðal annars látin falla óviðurkvæmileg orð um Lilju Alfreðsdóttur. Í byrjun desember brást Lilja síðan við atburðunum í opinskáu viðtali í Kastljósi. „Ég upplifi þetta sem algjört ofbeldi. Þeir eru ofbeldismenn. Ég segi bara að þetta er alveg skýrt í minum huga. Ofbeldismenn hafa ekki dagskrárvald í íslensku samfélagi,“ sagði Lilja í viðtalinu. 

Í morgun birtust upplýsingar úr erindi Gunnars Braga Sveinssonar til forsætisnefndar, en á upptökum heyrðist hann kalla Lilju „tík.“ Gunnar Bragi segir Lilju hafa fengið afsökunarbeiðni vegna þessa. Hann segir orðin eiga sér rætur í vonbrigðum vegna persónulegs máls. 

„Það er hins vegar al íslenskt að nota þau orð sem þarna voru höfð uppi og hafa ekki til þessa talist ósiðleg en klárlega skammarorð,“ sagði Gunnar Bragi í bréfinu. Hann sagði enn fremur að „þrátt fyrir að menntamálaráðherra hafi misnotað orðið ofbeldi í pólitískum tilgangi þá er menntamálaráðherra fyrst og fremst stjórnmálamaður sem nýtir sín tækifæri en er ágætis manneskja.“