Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lilja ræddi við danska ráðherrann um handritin

Mynd með færslu
 Mynd:

Lilja ræddi við danska ráðherrann um handritin

29.08.2019 - 13:06

Höfundar

Menntamálaráðherrar Íslands og Danmerkur ræddu saman í morgun um að Danir afhendi Íslendingum þau fornrit sem enn eru í Kaupmannahöfn. Ráðherra er bjartsýn á að viðræðurnar skili árangri, enda verði brátt viðeigandi húsnæði til staðar.

„HANDRITIN HEIM”

Nær hálf öld er liðin síðan Íslendingar tóku á móti Flateyjarbók og Konungsbók frá Dönum, við hátíðlega athöfn á höfninni í Reykjavík. Fyrirsögn Morgunblaðsins 21. apríl það ár var „HANDRITIN HEIM“. Og í morgun birti Morgunblaðið keimlíka fyrirsögn: Menntamálaráðherra vill handritin heim.

Þar er greint frá því að ríkisstjórnin ákvað í gær að að hefja viðræður við dönsk stjórnvöld um að fá fleiri íslensk fornrit, sem geymd eru í Kaupmannahöfn, til Íslands. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, skipar starfshóp fulltrúa fjögurra ráðuneyta og Stofnunar Árna Magnússonar, með Guðrúnu Nordal forstöðumann í broddi fylkingar, til að sjá um verkefnið. Meðal þeirra rita sem enn eru í Danmörku eru Ormsbók, eitt af höfuðhandritum Snorra-Eddu, og elsta handritið, Reykjabók Njálu. 

Bjartsýn á að Danir skili gersemunum

Lilja hefur undirbúið þetta um nokkurt skeið, meðal annars sem lið í að fylgja eftir þingsályktun Alþingis um að efla íslenska tungu. Handritin verða þá hýst í nýju Húsi íslenskunnar, sem verið er að reisa. 

„Og þess vegna finnst okkur eðlilegt að fara í þessar viðræður. Ég átti símafund með danska menntamálaráðherranum, Ane Halsboe-Jørgensen, og þar sem við erum sammála um að setjast niður og fara yfir þessi mál. Ég er mjög vongóð um að það takist vel til. Vegna þess að eitt af því sem hefur verið að gerast í þessum safnamálum á alþjóðavísu er að svona þjóðargersemum hafa verið skilað í meira mæli til upprunaríkjanna. Mér finnst akkúrat lag núna, þegar við erum að undirrita samninginn um byggingu Húss íslenskunnar, að hefja þessa vegferð þá um leið,” segir Lilja.  

Er eitthvað því til fyrirstöðu að við fáum þau heim? 

„Nei, ég tel að svo sé ekki. Það er auðvitað vaxandi skilningur á alþjóðavísu að svona menningarverðmætum sé skilað til upprunalandsins.”