Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lilja: Flokksformanna að sannfæra sína þingmenn

Mynd með færslu
 Mynd: Arctic Circle
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, er sannfærð um að frumvarp hennar um styrki til einkarekinna fjölmiðla verði samþykkt þrátt fyrir að það hafi tekið litlum breytingum frá því að hópur þingmanna Sjálfstæðisflokksins gagnrýndi það í vor. Formenn samstarfsflokkanna í ríkisstjórn beri ábyrgð á því að fá samþykki sinna þingmanna fyrir því. 

Einu breytingarnar á frumvarpinu frá því það var lagt fram í fyrravetur eru að styrkir til minni fjölmiðla lækka en hámarkið, 50 milljónirnar sem stóru fjölmiðlarnir geta fengið, er hið sama og áður. Andstaða meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins við frumvarpið kom í veg fyrir að Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra mælti fyrir því á vorþingi. Hún  segist nú vonast til að það verði að lögum fyrir áramót.

„Frumvarpið er tilbúið, ríkisstjórnin hefur samþykkt það og það bíður nú þinglegrar meðferðar, þannig að ég geri ráð fyrir að forystufólk í ríkisstjórninni klári það með sínu fólki,“ segir Lilja.

Spurð hvort hún hafi fullvissu fyrir því að þingflokkur sjálfstæðisflokksins muni samþykkja frumvarpið svarar hún: „Það er búið að vanda til verks og þetta er vinna sem hófst nú í tíð Sjálfstæðisflokksins undir forystu Illuga Gunnarssonar og við erum að setja upp styrkjakerfi í anda þess sem Bjarni Benediktsson, fjármála og efnahagsráðherra hefur verið að setja upp hvað varðar kvikmyndir, bækur og annað slíkt, þannig að þetta er allt í fullu samræmi við stefnu stjórnvalda,“ segir Lilja.

En nú eru þessi rök sem þú ert að tína til, öll þau sömu og þú notaðir í vor. En það dugði ekki til þá til þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins veittu þessu brautargengi. Hvað hefur breyst síðan? „Ég myndi segja að við áttum okkur auðvitað öll á því að staðan er mjög viðkvæm á fjölmiðlamarkaði og nú reynir á þinglega meðferð og við verðum að sjá hvað setur,“ segir hún.

Óttastu viðbrögð þessara sem voru að gagnrýna þetta í vor? „Nei, ég geri það ekki. Ég hef gaman af því að leggja fram þá vinnu sem hefur veirð að eiga sér stað og hún hefur líka verið gerð í samvinnu við þessa aðila þannig að það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr þessu,“ segir Lilja.

 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir