Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Líkti eyðingu fóstra með Downs við nasisma

16.08.2017 - 07:57
Former Alaska Gov. Sarah Palin endorses Republican presidential candidate Donald Trump during a rally at the Iowa State University, Tuesday, Jan. 19, 2016, in Ames, Iowa. (AP Photo/Mary Altaffer)
 Mynd: AP
Sarah Palin, fyrrverandi ríkisstjóri í Alaska og varaforsetaefni Repúblikana, gagnrýnir Ísland fyrir fósturgreiningar sem hafa leitt til mikillar fækkunar þeirra barna sem fæðast með Downs heilkenni. Sjálf á hún átta ára gamlan son með Downs. Hún líkti þessu við Þýskaland undir stjórn nasista á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar.

Palin var í viðtali á Fox sjónvarpsstöðinni þar sem hún var spurð út í umfjöllun CBS sjónvarpsstöðvarinnar um efnið. Palin sagðist hafa orðið miður sín við lestur umfjöllunarinnar. „Þessi skortur á umburðarlyndi fyrir þeim sem eru ólíkir þér er rangur, illur.

Palin rifjaði upp kynni sín af Ólafi Ragnari Grímssyni, þáverandi forseta, og kvað Ísland fallegt land. Hún og Ólafur Ragnar hefðu rætt um það hversu fallegt, duglegt og hjartahlýtt fólkið væri í ríkjum sínum. „Ísland verður ekki jafn fallegt ef það heldur áfram að vera svo óumburðarlynt að það eyðir lífi þeirra sem líta öðruvísi út en það sem einhverjum finnst vera fullkomið.“ Hún sagði að það sem gerði börn með Downs frábrugðin öðrum væri það sem gerði þau einstök. Það gerði heiminn að betri stað. „Að reyna að eyða lífi þeirra í nafni þessa ð byggja upp fullkominn kynþátt eða land minnir á Þýskaland nýnasismans þegar þeir reyndu það sama. Minnumst hryllingsins sem hlaust af þeim gjörðum.“

Palin sagðist skilja hvers vegna móðir kynni að verða óttaslegin þegar hún fengi þau skilaboð að barn hennar kynni að verða með Downs heilkenni. Hún segir að sá ótti hafi vikið þegar barn hennar fæddist. „Hver erum við án ástar og umburðarlyndis?“

Aðspurð um kynbætur sagði Palin að víða, til dæmis í Bandaríkjunum, væri að finna fordóma og kynþáttahatur, þar sem fólk dæmdi aðra út frá húðlit, líkamsburðum, tali eða augnsvip. „Það er sorglegt og færir þjóð okkar og heim aftur til fortíðar, til tíma og viðhorfa sem við viljum ekki að viðgangist lengur.“ Hún sagði því dapurlegt að enn væri að finna dæmi þess að fólk reyndi að útrýma þeim sem væru öðruvísi en meðalmaðurinn. Þess í stað ætti að styðja ungar mæður barna með Downs til dæmis með því að vekja athygli á því hversu mikla gleði börnin færðu foreldrum sínum og heiminum.