Líklegt að farið verði fram á gæsluvarðhald

19.01.2017 - 08:15
Mynd: Skjáskot / RÚV
Yfirheyrslum yfir mönnunum tveimur, sem fyrst voru handteknir um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq í gær, lauk á áttunda tímanum á morgun. Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, í samtali við fréttastofu. Í framhaldinu hófust yfirheyrslur yfir þriðja manninum sem handtekinn var um borð í gærkvöld. Grímur segir líklegt að farið verði fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur þótt ekki hafi verið tekin endanleg ákvörðun um slíkt.

Grímur segir að Polar Nanoq, sem kom til hafnar í Hafnarfjarðarhöfn klukkan 23 í gærkvöld, sé enn undir stjórn íslenskra yfirvalda. Hann segir að rannsókn á skipinu sé lokið í bili en vill ekkert tjá sig um hvað kom út úr þeirri rannsókn. Hann vildi heldur ekkert segja til um hvort mennirnir tveir, sem fyrst voru yfirheyrðir, hefðu verið samstarfsfúsir.

Mennirnir voru færðir úr togaranum á lögreglustöðina í nótt. Búið er að taka skýrslu af öðrum í áhöfninni en engir aðrir  hafa ekki réttarstöðu grunaðs manns. 

„Nú erum við búnir að vera að yfirheyra þrjá menn sem voru handteknir og tekið vitnaskýrslur af áhöfninni, auk þess sem við höfum framkvæmt leit í skipinu. Í öllu þessu eru upplýsingar sem við höfum verið að safna og eru þáttur í að leysa málið,“ sagði Grímur í Morgunútvarpinu á Rás 2.

„Ég held að það sé óhætt að segja það því ég hef verið að reyna að víkja mér undan því að svara því hvort þetta sé sakamál eða ekki. Það er það náttúrlega, það er verið að rannsaka hvort að hvarf Birnu [Brjánsdóttur] hafi borið að með saknæmum hætti,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stjórnar rannsókninni á hvarfi Birnu, sem ekkert hefur spurst til frá því á laugardagsmorgun.