Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Líklegra að svartsýnustu spár verði að veruleika

16.03.2020 - 20:04
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Sífellt líklegra er að svartsýnustu spár um áhrif COVID-19 faraldursins á efnahagskerfið hér á landi verði að veruleika. Þetta segir Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka. Nauðsynlegt sé að ríkisstjórnin styðji við bakið á atvinnulífinu. Þó megi ekki gleyma því að ástandið sé tímabundið.

Rætt var við Ernu Björgu í sjónvarpsfréttum RÚV í kvöld. Þar var hún meðal annars spurð um stöðu flugfélaganna.

„Það er mjög erfið staða uppi á flugmarkaði núna og við erum í rauninni þegar búin að sjá flugfélög fara í gjaldþrot, það fyrsta, Flybe, núna í mars. En hvort og þá hversu mörg flugfélög munu fylgja eftir fer dálítið eftir tvennu; annars vegar hversu lengi faraldurinn er að fara yfir, og hvernig eftirspurnin tekur við sér á nýjan leik. Og svo það sem skiptir ekki síður máli, sérstaklega fyrir félög sem búa núna við þrönga lausafjárstöðu, það er hversu reiðubúnar ríkisstjórnir eru til þess að veita aðstoð,“ segir Erna Björg.

Er það eitthvað sem gæti gerst, líkt og við sáum varðandi bankana í fjármálakrísunni árið 2008, að ríkisstjórnir séu að fara að bjarga flugfélögum í stað banka?

„Það eru náttúrulega fordæmi fyrir því, að ríkisstjórnir hafa stigið inn og aðstoðað lykilflugfélög, í þeim tilgangi að tryggja samgöngur. Þannig að það væri ekki nýtt af nálinni, ef það myndi gerast núna.“

Gæti minnt á hrunið

En erum við að fara að sigla inn í meiriháttar krísu eins og 2008?

„Það sem þarf að hafa í huga er að þetta eru öðruvísi krísur og þær eru ólíkar að eðlinu til. Þetta er hins vegar dálítið fordæmalaus staða sem við erum að horfa fram á og ég hugsa að við þurfum að horfast í augu við það að svartsýnu myndirnar sem voru teiknaðar upp fyrir einhverjum dögum og vikum, að það er sífellt líklegra að sú verði raunin. Og hvað varðar Ísland, þá gæti ég trúað að þær efnahagstölur sem verða birtar á komandi vikum og mánuðum, að þær gætu minnt um margt á þann samdrátt sem við sáum í fjármálahruninu.“

Það er búist við því að ríkisstjórnin kynni umfangsmikinn efnahagspakka síðar í vikunni. Hvað þarf sá pakki að vera stór og hvað þarf að felast í honum?

„Hversu stór hann er ræðst bara af því hversu þungt höggið og áfallið verður fyrir hagkerfið. En það sem maður vill auðvitað sjá og er mjög jákvætt er að við höfum séð ríkisstjórnina stíga fram, sem og Seðlabankann. Og það er jákvætt að fá þessi viðbrögð þeirra, að þau séu tilbúin, þessir opinberu aðilar, til þess að gera allt sem þau geta til þess að styðja við hagkerfið. Það sem maður vill auðvitað fyrst og fremst sjá núna er að það verði nauðsynlegur stuðningur við atvinnulífið til að byggja upp störf í landinu, og svo má auðvitað ekki gleyma að hugsa að þetta er vonandi tímabundið ástand þannig að við þurfum að vera tilbúin til að grípa boltann þegar aðstæður batna, þegar það erfiðasta er gengið yfir, og að koma hagkerfinu af stað á nýjan leik.“

En það þarf að dæla einhverjum tugum milljarða út í hagkerfið?

„Já. Með hverjum deginum sem líður verður ljóst að þetta verða sífellt hærri fjárhæðir,“ segir Erna Björg.