Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Líkamsræktarvörur rokseljast í samkomubanni

23.03.2020 - 13:40
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Nicole De Khors - burst.shopify.com/Creative commo
Líkamsræktarvörur rokseljast þar sem fólk keppist við að koma sér upp aðstöðu til æfinga heima við. Þetta gerir fólk til að bregðast við COVID-19 faraldri og samkomubanni. Fjölmargar vörur hafa selst upp, ekki aðeins í einstaka verslunum heldur á landinu öllu.

Landsmenn sem stunda líkamsrækt hafa síðustu vikur keppst við að koma sér upp aðstöðu til æfinga heima við. Þetta er allt frá dýnum og léttum æfingatækjum sem fólk getur rúllað út í stofum eða herbergjum heima við upp í fullbúna æfingaaðstöðu sem það kemur sér upp í bílskúrum eða annarri aðstöðu.

Mikil aðsókn hefur verið í verslanir sem selja slíkar vörur undanfarið. Margt hefur selst upp eða er til í litlu magni.

Árssala á einni viku

„Það er búið að vera feykilega mikið að gera undanfarnar tvær til þrjár vikur,“ segir Svavar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Fitness sport. „Við erum búin að selja æfingatæki og lóð á einni viku sem er svipað og á heilu ári venjulega.“ Hann segir að nú þegar fjöldi fólks er kominn í sóttkví, vinnur heima hjá sér eða sér fram á að líkamsræktarstöðvar lokist nýti það tækifærin til að geta æft heima hjá sér.

„Það versta er að ég held að meira og minna allar verslanir séu að verða uppiskroppa,“ segir Svavar. „Við eigum eitthvað sáralítið eftir af lóðum og stöngum sem mun væntanlega klárast í vikunni.“ Hann bendir á að fleiri leiðir séu þó færar til að halda áfram æfingum. „ Það er hægt að gera æfingar með alls kyns teygjur. Við eigum dýnur til að gera æfingar á. Það þarf ekki alltaf lóð og stangir til.“

Það er ekki hlaupið að því að fá inn nýjar vörur í stað þeirra sem seljast upp. „Gallinn við þessar vörur er að þær eru allar níðþungar. Það er ekki hægt að panta með skömmum fyrirvara og fá með flugi,“ segir Svavar.

Mynd með færslu
 Mynd: MaxPixel
Fækkað hefur á líkamsræktarstöðvum og þeim verður lokað í kvöld með hertu samkomubanni.

Fyrst ruku dýnurnar út og svo lóðin

Árni Friðberg Helgason, markaðsstjóri hjá Sportvörum, segir að þar á bæ hafi menn fundið fyrir því fyrir tæpum tveimur vikum að sala á jógadýnum og jógahandklæðum tók kipp. Á nokkrum dögum jókst eftirspurnin svo til muna og fólk fór að kaupa fleiri vörur í stórum stíl. Ketilbjöllur, handlóð, dýnur, lóðastangir og lóðaplötur voru vinsælar. „Þetta var allt frá því að kaupa vörur til að vera með inni í herbergi upp í bílskúrsgym.“ Fólk var því að kaupa allt frá dýnum og nokkrum handlóðum upp í lyftingasett, þrekhjól, hlaupabretti og annað slíkt.

Árni segir að ballið hafi byrjað á fimmtudag fyrir rúmri viku. „ Það var rosalega mikið að gera. Við erum bæði smásala og heildsala. Við byrjuðum að finna fyrir þessu í búðinni og í netverslun. Við sendum hvert á land sem er. Allt í einu varð brjálað að gera. Við reyndum að afgreiða alla í búðinni en á sama tíma komumst við ekki í að afgreiða pantanir í netverslun. VIð þurftum að vinna til miðnættis nokkur kvöld.“ Niðurstaðan varð því að loka búðinni en selja vörur í gegnum netverslun. Fólk getur þá annað hvort fengið vörurnar sendar heim eða komið að sækja þær, en þá þarf fólk að hringja fyrir utan búðina og varan er afgreidd til þess. Þetta segir Árni að sé gert bæði til að tryggja öryggi starfsmanna og viðskiptavina, og til að tryggja að hægt sé að afgreiða allar pantanir í réttri röð.

Sáum þetta ekki fyrir

„Við sáum þetta ekki heldur fyrir. Þetta breyttist svo hratt frá degi til dags,“ segir Árni. Hann segir að fólk hafi fyrst hugsað um að minnka heimsóknir í ræktina eða koma með eigin dýnu og handklæði til að minnka hættu á smiti. „Svo þegar kom upp að það yrði samkomubann þá fór allt á fullt. Um leið og sú umræða fór af stað fundum við fyrir því. Það er brjálað að gera. Síminn stoppar ekki.“

Söluaukningin til einstaklinga er mikil en á móti kemur að salan til líkamsræktarstöðva og sveitarfélaga sem reka líkamsræktaraðstöðu hefur alveg fallið niður, segir Árni. „Þær vörur sem við áttum áttu að duga fram á sumar. Mikið af því er búið þannig að við erum að heyra í kollegum okkar sem finna fyrir þessu að einhverju leyti en ekki eins mikið og hér.“ Það getur þó tekið tíma að fá inn vörur frá framleiðendum erlendis og viðbúið að eitthvað verði ekki til um skeið. Árni segir menn einnig vera að skoða veikingu krónunnar. Fyrirséð er að innflutt vara verði dýrari í innkaupum en reynt verði eftir megni að koma í veg fyrir verðhækkun.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV