Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Líkamsleifar Francos fluttar í óþökk afkomenda

24.10.2019 - 19:35
Mynd: EPA-EFE / EFE POOL
Líkamsleifar fyrrverandi einræðisherra Spánar, Francisco Franco, voru fluttar í dag úr basilíkunni í Dal hinna föllnu norður af Madríd. Fylgjendur Francos fjölmenntu þangað en afkomendur hans lögðust gegn flutningnum.

Franco var einræðisherra á Spáni frá borgarastríðinu 1939 til dauðadags 1975. Um hálf milljón manna féll í borgarastríðinu og Franco lét sjálfur reisa minnisvarða um þá í Dal hinna föllnu, þar sem líkamsleifar hans voru síðan grafnar. Afkomendur þeirra sem börðust gegn fasistahreyfingu Francos voru mjög ósáttir við að hann hvíldi við hlið þeirra og spænska þingið samþykkti að líkamsleifarnar yrðu fluttar, því minnisvarðinn hafi verið hálfgert helgiskrín þeirra sem sakna einræðisstjórnarinnar.  

Kista Francos var flutt í þyrlu yfir í Mingorrubio El Pardo kirkjugarðinn, þar sem hann mun hvíla við hlið eiginkonu sinnar. Stjórn Sósíalistaflokksins á Spáni ákvað að flytja líkamsleifarnar þrátt fyrir mótmæli ættingja og forsætisráðherrann fagnaði því í dag að þessu langa ferli væri nú lokið.