Lík piltsins sem féll í Núpá fundið

13.12.2019 - 14:58
Innlent · Slys
Mynd með færslu
 Mynd: pixabay.com
Laust eftir hádegi tilkynnti áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar að lík hefði fundist í Núpá við Fossgil í Eyjafirði. Talið er að líkið sé af piltinum Leif Magnúsi Grétarssyni Thisland sem leitað hefur verið síðan á miðvikudagskvöld. Rétt fyrir klukkan þrjú var lögreglan upplýst um að björgunarmenn hefðu náð líkinu úr ánni. Var það flutt með þyrlu til Akureyrar. Aðstandendur drengsins hafa verið upplýstir sem og norska sendiráðið á Íslandi.

Lögreglu barst tilkynning um að drengur hefði fallið í Núpá í Sölvadal í Eyjafirði um tíuleytið á miðvikudagskvöld. Björgunarsveitir voru strax sendar á slysstað til leitar. Drengurinn var að aðstoða bónda á bæ í Sölvadal við að koma rafmagni á heimarafstöð við stíflu í ánni þegar krapabylgja hreif hann með sér. 

Hermann Karlsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, segir í samtali við fréttastofu að leit sé formlega lokið. Nú fari af stað hefðbundin rannsóknarvinna. „Verið er að draga allt saman, taka saman búnað og koma liðinu í hús hér á Akureyri. Svo verður farið yfir stöðuna.“

Hermann segir að aðstæður á slysstað hafi verið mjög erfiðar. Töluverðan tíma hafi tekið að tryggja öryggi björgunarsveitarmanna áður en unnt hafi verið að sækja líkið í ána því mikil hætta hafi verið á krapaflóði. 

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra þakkar öllum sem að leitinni komu fyrir umfangsmikið og óeigingjarnt starf við mjög erfið leitarskilyrði.

Fréttin hefur verið uppfærð. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV