
Lífeyrissjóðir skoði stofnun íbúðalánabanka
Seðlabanki Íslands hefur lækkað stýrivexti um 1,25 prósentur á undanförnum mánuðum. Þessi lækkun hefur hins vegar einungis skilað sér að hluta til neytenda í formi lægri vaxta á húsnæðislánum, eins og Drífa Snædal, forseti ASÍ, benti á í vikulokunum Rás 1 í gær. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, tekur undir þetta og segir bæði banka og lífeyrissjóði hafa veirð að stórauka álagningu ofan á markaðsvexti. Staðan gefi lífeyrissjóðum tilefni til að skoða húsnæðislánakerfi sitt upp á nýtt.
„Að sjóðirnir fari meira í það að fjármagna íbúðalánabanka heldur en að taka ógagnsæjar ákvarðanir um vaxtastig hverju sinni sem að oft eru byggðar á veikum grunni? Það er til dæmis gert í Danmörku og fleiri Evrópulöndum og þetta er mjög þekkt fyrirkomulag í þeim löndum sem við berum okkur gjarnan saman við.“
Ragnar segir að með þessu fyrirkomulagi geti neytendur gengið að því vísu að vextir á lánum þeirra lækki sjálfkrafa þegar stýrivextir lækka, en að það sé ekki í höndum stjórna lífeyrissjóðanna hverju sinni.
„Það er eitthvað sem að mínu mati stríðir gegn lögum um húsnæðislán og ég veit að Neytendastofa er með nokkur slík mál til skoðunar. En fyrst og fremst þurfum við að finna leiðir, hugsa út fyrir rammann, og finna einhverjar leiðir sem að tryggja almenningi í landinu viðunandi vaxtakjör og bestu vaxtakjara hverju sinni.“