Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lífeyrissjóðakerfið heldur um 4.400 milljarða

15.07.2019 - 09:52
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Íslendingar hafa fært rúma 58 milljarða króna úr séreignasjóðum sínum inn á húsnæðislán á þeim fimm árum sem það hefur verið leyfilegt. Framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða segir kerfið nú halda utan um 4.400 milljarða króna, þar af um 400 milljarðar í séreignalífeyrissparnaði.

Ríkið reiknar með að verða af þremur milljörðum króna á ári vegna framlengingar úrræðis sem leyfir landsmönnum að nýta sjóð sinn til niðurgreiðslu lánanna. Úrræðið hefur verið framlegt til ársins 2021, eins og fram kom í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. 

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, var gestur Morgunútvarpsins og segir hún sjóðina bæði hafa stækkað mikið á síðustu árum, á sama tíma og húsnæðisvandinn hafi aukist. 

„Lífeyrissjóðirnir hafa verið að stækka mjög mikið, þannig að þetta hefur óveruleg áhrif á rekstur þeirra. Þetta er bara umbreyting á sparnaði einstaklinganna. Við höfum verið að horfa á hvað er sjóðfélögum og þjóðfélaginu til heilla í heild. Lífeyrissjóðirnir eru eingöngu starfandi fyrir sjóðfélagana þannig að við horfum einvörðungu á hvað er þeim fyrir bestu. Ef það eru uppi vandamál að eignast húsnæði, sem hefur verið, þá er mjög eðlilegt að það sé litið til þess hvort lífeyrissjóðakerfið geti komið að því með einhverjum hætti. Og þetta er sú leið,” segir Þórey. „En það þarf líka að meta hvort það sé gengið of langt. En lífeyrissjóðakerfið í dag er orðið um 4400 milljarðar og það eru 3800 milljarðar í samtryggingarsjóðum. Og það eru yfir 400 milljarðar síðustu áramót í séreign í vörslu lífeyrissjóða og um 200 í vörslu annarra.”