Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Líf sprettur af svitanum

Mynd: RÚV / RÚV

Líf sprettur af svitanum

09.08.2019 - 13:39

Höfundar

Regnbogans stræti er ný hljóðversplata eftir kónginn sjálfan, Bubba Morthens. Í þetta sinn í samstarfi við hljómsveit. Upptökustjóri er Guðmundur Óskar Guðmundsson. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið, sem er plata vikunnar á Rás 2.

„Líf sprettur af svitanum“ er hending úr Serbanum, einu af þeim fjölmörgu lögum Bubba sem teljast sígild. Bubbi er listfengur, söngvari góður, gítarleikari snjall og orðhagur en hann er og iðinn, vinnusamur, duglegur og skilur að það eru fyrst og síðast klukkustundirnar sem þú setur í köllunina sem telja, er við loks snúum tám í loft. Ertu virkur? Ertu að mæta? Ertu að GERA? Ertu að svitna fyrir listina, gefa hugmyndum líf og fjörga umhverfið?

Þessir eiginleikar Bubba hafa gert að verkum að enginn íslenskur tónlistarmaður kemst með hælana hvar hann hefur tærnar, hvað útgáfu á efni varðar. Plötur skipta mörgum tugum, lög hundruðum og ekki nóg með það, heldur er þarna fjöldinn allur af verkum sem sannanlega teljast sígild. Ferill þessa manns er með öllu einstakur. Og áfram heldur hann, óhikað.

Mannval

Á Regnbogans stræti leggur hann upp með hljómsveitahljóm, ólíkt því sem gert var á síðustu plötu, Túngumál, sem var til muna naktari. Bubbi er naskur, hefur alla tíð haft vit á að ræsa út góðan mannskap og sækir óhikað í æskubrunna hvað það varðar. Hér stýrir Guðmundur Óskar Guðmundsson upptökum ásamt því að leika á bassa, Hjörtur Ingvi Jóhannsson spilar á hljómborð, Örn Eldjárn á gítar, Aron Steinn Ásbjarnarson á saxófón og Þorvaldur Þór Þorvaldsson á trommur. Elísabet Ormslev, Zöe, Rósa Björk Ómarsdóttir, Valdimar Guðmundsson og Stefanía Svavars syngja bakraddir og Addi 800 sá um hljóðblöndun og hljóðjöfnun. Katrín Halldóra Sigurðardóttir syngur þá eitt lag með Bubba.

Túngumál (2017) var afskaplega vel heppnuð. Mikil gítarplata (gítarana spilaði Bubbi alfarið sjálfur) sem sótti hljóðmynd sína suður á bóginn, áhrif meðal annars frá Brasilíu, Chile, Mexíkó og Portúgal. Platan var því óvenjuheilsteypt og andinn yfir okkar manni sem aldrei fyrr. Regnbogans stræti er öðruvísi verk, meira bland í poka stíllega, og hljómsveitarvinkillinn, og þetta mannval sem á plötunni, nýtt út í hörgul, nema hvað.

Platan hefst með „Velkomin“, sem er ansi glúrið opnunarlag. Við erum boðin velkomin inn í plötuna, heim Bubba, en textinn er um leið rammpólitískur og beittur. Flóttafólkið okkar er nefnilega boðið velkomið líka, fær hlýjar kveðjur frá vísum manni, sem margt hefur séð og upplifað. „Hver segir, þú megir ekki dreyma / Hver segir þú, átt ekki hér heima / Átt þína von/ Átt þína trú ...“. Svona eru opnunarlínurnar. Afstaða, og einörð er hún. Alveg ótrúlega fallegt og ekki síður mikilvægt. Svona gerir bara Bubbi Morthens. Lagið er gospel-skotið, með dásamlegum stálgítar, stórt og umvefjandi. Einfalt að byggingu en því áhrifameira. Frábær byrjun. „Eitt hjarta“ tekur við, og gefur breiddina til kynna. Rokkari, og níunda áratugs stemning yfir. Hringlandi gítar og ég hugsa um Waterboys, jafnvel R.E.M.. Titillagið lokar svo fyrstu hliðinni á þessu tvöfalda albúmi (ó, hvað er gaman að tala gamalt vínyltungumál!). Ádrepa úr Dylan/Cohen skólanum þar sem Bubbi kastar fram pælingum um vegferð mannsins, „Það er í eðli sumra á ystu brún að standa / Fyrst þá, sem finnist þeir anda / Gefast aldrei upp, þó óttinn þeim mæti / Í hliðargötum, frá Regnbogans stræti.“ Meiriháttar smíð, hlaðin sams konar pælingum út í gegn.

„Límdu saman heiminn minn“ er hins vegar rokkari þar sem er trukkað í sams konar gír og á „Eitt hjarta“. Bróðir minn fékk Big Country fíling við að heyra þetta, og það gladdi mig. „Án þín“ er einlæg ballaða, dúett sem er sungin með áðurnefndri Katrínu (sem er búin að gera garðinn frægan í Elly). Viljandi gamaldags, svona fjórða eða fimmta áratugsbragur yfir, og sterkar, áhrifaríkar hversdagslínur („Hvernig þú drekkur þitt kaffi / Hvernig þú horfir bara á mig“).

Broddur

Ég er mjög hrifinn af „Skríða“. Broddur í því sem minnir á Das Kapital þess vegna. Grípandi melódía og góð, svona ekta Bubbalaglína sem hann virðist geta hrist fram úr erminni eins og ekkert sé. Flottur stígandi og viðlagið vel heppnað. Eins og segir, fjölbreytnin er giska mikil hér. „Lífið fyrirgefur dauðanum“ er eins og að Tom Waits hafi heimsótt Buena vista-gengið, „Gamlárskvöld“ er reggílag (Bubbi hefur hent í eina og eina reggístemmu á undanförnum plötum) og „Ást er allt sem þarf“ er skammlaus óður til Springsteen og E-sveitar hans. „Verstu dagarnir eru bestir“ lokar plötunni með drífandi hætti, þó að titillinn gefi annað til kynna, í raun vottun á því hvernig maður er við stjórnvölinn. Birtan er ávallt í forgrunni, fremur en hitt. Ég vil svo sérstaklega nefna „21 tafla“, sem er sérstæðasta lag plötunnar. Grimmt lag, kolsvart eiginlega, enda viðfangsefnið eiturlyfjaneysla. Röddin er fjarlæg og kæfð (viljandi) og tónlistin með sama hætti. Naumhyggjulegt og myrkt, frábærar trommur og geðveikislegur sax. Ég fæ hugrenningatengsl við „57 Channels (and nothin‘ on)“ Stjórans.

Þessi dómur er orðinn langur enda tilefni til. Bubbi þarf ekki að sanna neitt lengur fyrir neinum, en eldurinn brennur glatt, nú sem áður. Bubbi er eins og Lýsi, Bubbi er eins og Prins og kók. Þaulþræddur í íslenska þjóðarsál, hluti af henni og þar með okkur, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Megi kóngurinn drottna lengi vel.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Bubbi – Regnbogans stræti

Tónlist

Katrín Halldóra og Bubbi frumflytja Án þín

Popptónlist

Bubbi tekur upp lífrænt hráfæði