Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Liðsmenn Sigur Rósar ákærðir fyrir skattsvik

28.03.2019 - 14:09
Mynd með færslu
 Mynd: EPa
Fjórir liðsmenn íslensku hljómsveitarinnar Sigur Rósar, þeir Georg Holm, Kjartan Sveinsson, Orri Páll Dýrason og Jón Þór Birgisson, hafa verið ákærðir fyrir skattsvik. Ekki liggur fyrir hvenær málin verða þingfest en ákærurnar hafa allar verið birtar. Tónlistarmennirnir eru ákærðir fyrir að telja ekki fram tekjur eða arðgreiðslur.

Allir liðsmenn Sigur Rósar nema Kjartan Sveinsson eru ákærðir fyrir meiriháttar skattalagabrot með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattaframtölum gjaldárin 2011 til og með 2014.  Kjartan er í ákærunni sinni sagður hafa staðið skil á efnislega röngum skattaframtölum árin 2012 og 2014.

Í ákærunni á hendur Jóni Þór Birgissyni, söngvara sveitarinnar, er honum gefið að sök að hafa komið sér undan greiðslu tekjuskatts upp á rúmar þrjátíu milljónir króna og fjármagnstekjuskatt upp á 13 milljónir. Í ákærunni kemur fram að hann hafi látið undir höfði leggjast að telja fram tekjur upp á 75 milljónir og arðgreiðslu uppá 67 milljónir.

Endurskoðandi Sigur Rósar er jafnframt sagður ekki  hafa staðið skil á skattframtölum Jóns Þórs gjaldárin 2014 og 2015. Með því er söngvarinn sagður hafa komist undan greiðslu tekjuskatts upp á 22,6 milljónir og fjármagnstekjuskatts upp á 10 milljónir.

Georg Holm, bassaleikari sveitarinnar, er ákærður fyrir að hafa komist hjá greiðslu tekjuskatts upp á 35 milljónir og fjármagnstekjuskatts upp á 9,5 milljónir. Tekjur Georgs á þessu tímabili sem ákæran tekur til námu, samkvæmt ákærunni, 79 milljónum og arðgreiðslur 47 milljónir.

Kjartan Sveinsson, sem sagði skilið við Sigur Rós fyrir sex árum, er einnig ákærður.  Hann er sagður hafa komist hjá því að greiða tekjuskatt upp á rúmar 18 milljónir vegna tekna sem hann var með en þær námu, samkvæmt ákæru saksóknara, 42 milljónum. 

Orri Páll Dýrason, sem hætti í Sigur Rós í október síðastliðnum, er ákærður fyrir að hafa komist hjá greiðslu tekjuskatts upp á 36 milljónir og fjármagnstekjuskatt upp á 9,5 milljónir. Orri Páll var með tekjur upp á 81 milljónum á þessu tímabili og fékk arðgreiðslu upp á 47 milljónir. 

Mál Sigur Rósar hefur vakið mikla athygli enda sú íslenska hljómsveit sem náð hefur hvað lengst.  Þeir hafa alla tíð haldið fram sakleysi sínu og segjast hafa verið í góðri trú um að þeir sérfræðingar sem ráðnir höfðu verið til að sjá um skattskil þeirra og uppgjör stæðu að því með réttum hæti. Aldri hafi verið tilefni til að ætla annað en að rétt væri staðið að framtalsskilum þeirra og uppgjöri.  Eignir þeirra hafa verið kyrrsettar en stærstur hluti þeirra er í eigu Jóns Þórs.

 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV