Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Liðlega sjötug kona látin af völdum COVID-19

24.03.2020 - 07:48
Mynd með færslu
 Mynd:  - Pexels
Íslensk kona lést á smitsjúkdómadeild Landspítalans í gær af völdum COVID-19. Konan var liðlega sjötug og hafði glímt við önnur langvarandi veikindi, er fram kemur í tilkynningu á vef Landspítala sem birt var í morgun. 

Sonur konunnar minnist móður sinnar í færslu á Facebook. Þar sem hann segir að þótt dauðsfall í fjölskyldu sé mikið einkamál fyrir flesta, vilji hann að fólk dragi lærdóm af dæmi móður hans. Hann segir hana hafa barist í heila viku fyrir lífi sínu, smituð af kórónaveirunni.

Konan var í áhættuhópi og fengu þrír fjölskyldumeðlimir að kveðja hana áður en hún lést. Þar af voru tveir í fjölskyldunni smitaðir af veirunni. Maðurinn undirstrikar að Íslendingar virði reglur og tilmæli stjórnvalda til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. 

Þetta er fyrsta dauðsfallið á Landspítalanum af völdum COVID-19 sjúkdómsins, en fyrir viku síðan lést ástralskur ferðamaður um fertugt á Heilbrigðisstofnuninni á Húsavík. Hann var smitaður af kórónaveirunni og leiddi bráðabirgðarkrufning í ljós að banamein hans hafi að öllum líkindum verið COVID-19.