Létust bæði vegna reykeitrunar

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Orsök andláts parsins sem lést á Kirkjuvegi 18 á Selfossi í lok október var sú sama. Karlinn og konan létust bæði af völdum kolmónoxíðeitrunar sem var afleiðing þess að þau önduðu að sér reykgufum.

Þetta sagði Sebastian Kunz réttarmeinafræðingur sem gaf símaskýrslu við aðalmeðferð málsins fyrir Héraðsdómi Suðurlands í dag. Sebastian sagði að þau hafi bæði verið með sót í öndunarvegi.

Konan hafi haft 81 prósent kolmónoxíðs í blóðinu en karlmaðurinn 61 prósent. Það megi túlka á tvennan hátt. Annað hvort hafi konan andast á eftir karlmanninum eða þá að hún hafi orðið fyrir meiri áreiti af reyknum. En þar sem þau hafi bæði verið í sama herbergi og urðu þar af leiðandi fyrir sama magni af eiturgufum bendi það til þess að hún hafi látist síðar.

Kunz segir að hvorugt þeirra hafi verið með útlæg merki um höggáverka. Meinafræðileg ummerki um innri áverka á líffæri hafi heldur ekki verið greinanleg. Þannig að samkvæmt krufningu er ekkert sem bendir til þess að eitthvað annað hafi orðið þeim að bana.

Þá sagði Kunz að bæði hin látnu hafi neytt lyfja. Þessi lyf, sem meðal annars voru vínandi, hafi róandi áhrif og hefði getað dregið úr meðvitund þeirra sem gæti hafa orðið til þess að þau hafi orðið eldsins vör síðar en sá sem ekki neytti slíkra efna. Magnið var þó ekki svo hátt að líta megi á það sem eitrun.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi