Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Léttvínssala eykst og biðlistar eftir handlóðum

28.03.2020 - 21:31
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Nærri tvö þúsund manns eru á biðlista eftir ketilbjöllum og handlóðum. Rauð- og hvítvínssala hefur aukist um helming frá því að samkomubannið hófst og hirða þarf heimilissorp oftar í borginni.

Það er augljóst á ruslatunnum að fólk er meira heima við, enda hefur samkomubann verið í gildi í nærri tvær vikur.  „En ég held við getum verið að tala um 20-30% aukningu nú þegar í magni á sorpi. Við ætlum að bregðast við með því að auka hirðutíðnina,“ segir Guðmundur B. Friðriksson skrifstofustjóri umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg.

Reykjavíkurborg biðlar sem fyrr til fólks að muna að flokka. Margir eru komnir í fjarvinnu og aðrir nýta tímann til að taka til hendinni heima við.  „Það er mikilvægt að ganga vel frá sorpinu og það sé í tunnunum. Við tökum ekki það sem liggur utan við tunnurnar út að sóttvörnum,“ segir Guðmundur jafnframt.

Færri á ferðinni

Umferð á höfuðborgarsvæðinu hefur dregist saman um 17% að meðaltali í mars og greiðslur í stöðumæla borgarinnar hafa dregist saman um allt að 80% miðað við í febrúar.

Fólk getur ekki hitt vini og ættingja jafn mikið og áður. „Við höfum séð mikla aukningu í farsímanotkun, hún hefur tvöfaldast. Fólk er að hringja, notkun í heimasíma hefur aukist um 30%,“ segir Bryndís Þóra Þórðardóttir, vörustjóri hjá Símanum.

Mikið áhorf á blaðamannafund almannavarna

Dægrastyttingar í samkomubanni breytast. Sala í bókabúðum dregst saman en bóksala á netinu hefur margfaldast. Áhorfstölur ljósvakamiðla gefa góða vísbendingu um að fólk sé heima. „Sjónvarpstreymið hjá okkur hefur aukist um 40% yfir daginn. Fólk er að horfa á sjónvarp á daginn. Klukkan tvö, þegar það er blaðamannafundur almannavarna, þá dettur streymið niður og fólk stillir á línulegu rásina og fer að horfa,“ segir Bryndís Þóra jafnframt. 

Sala á léttvíni eykst um helming

Sala á áfengi í Vínbúðunum hefur aukist um 24 prósent í lítrum talið síðan samkomubannið hófst, miðað við sömu vikur í fyrra. Viðskiptavinum hefur þó ekki fjölgað eins, svo hver og einn kaupir meira. Lítrasala á rauðvíni og hvítvíni hefur aukist um helming.

Langur biðlisti eftir ketilbjöllum

Framkvæmdastjóri Hreystis segir sölu á líkamsræktartækjum síðustu tíu daga samsvara fjórum mánuðum í venjulegu árferði. Og biðlistar lengjast hjá Sportvörum.  „Þetta eru nokkur þúsund manns ef við tökum þetta allt saman. En til dæmis eftir ketilbjöllum og handlóðum þá eru þetta einhverstaðar á bilinu 1500-2000 manns,“ segir Árni Friðberg Helgason markaðsstjóri hjá Sportvörum.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV