Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Léttlest á höfuðborgarsvæðinu

29.06.2015 - 16:00
Mynd með færslu
 Mynd: Sigríður Hagalín Björnsdótt - RÚV
Nýtt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040 hefur verið samþykkt í öllum sveitarstjórnum og staðfest af Skipulagsstofnun. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en nú stendur yfir kynning á nýja skipulaginu.

Ný vatnsverndarsamþykkt tekur gildi um leið og skipulagið og skilgreiningu vatnsverndarsvæða verður breytt. Sveitarfélögin sem unnu saman að svæðisskipulaginu eru Garðabær, Hafnarfjörður, Kjósarhreppur, Kópavogsbær, Mosfellsbær, Reykjavíkurborg og Seltjarnarnesbær og hefur verið unnið að skipulaginu undanfarin þrjú ár.  

Gert ráð fyrir léttlest
Hryggjarstykkið í stefnunni er sögð vera Borgarlína, nýtt léttlestar-og hraðvagnakerfi, sem tengir kjarna sveitarfélaganna. Gert er ráð fyrir að meðfram Borgarlínu verði eftirsóknarverð uppbyggingarsvæði fyrir íbúa og atvinnulíf. Þetta komi til með að fá fleiri til að nota sér almenningssamgöngur og skapa skilyrði fyrir bætta þjónustu.

Byggðin á höfuðborgarsvæðinu hefur verið í örum vexti síðustu áratugi og dreifist um óvenju stórt svæði, segir í fréttatilkynningu. Gert er ráð fyrir að íbúum fjölgi áfram og að árið 2040 verði þeir farnir að nálgast 300 þúsund. Því er sagt að lykilatriði í stefnunni sé að ganga úr skugga um að vöxturinn verði hagkvæmur og að ekki verði gengið á umhverfisgæði íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV