Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Lesum mest og gefum út flestar bækur

Mynd með færslu
 Mynd:

Lesum mest og gefum út flestar bækur

02.05.2013 - 22:13
Íslendingar virðast sækjast meira eftir menningu en aðrar Norðurlandaþjóðir og hér starfa hlutfallslega miklu fleiri við menningarmál en í öðrum löndum Evrópu.

Helmingur Íslendinga les meira en 8 bækur á ári og aðeins Svíar og Finnar lesa meira. 93% Íslendinga lesa meira en eina bók ári og er það hlutfall hvergi hærra. Þetta er meðal þess sem kemur fram í rannsókn Ágústar Einarssonar prófessors um hagræn áhrif bókaútgáfu, en það er liður í ráðstefnu í þjóðfélagsfræðum við Háskólann á Bifröst um helgina.  Hér á landi hafa 3,2% vinnandi fólks lífsviðurværi sitt af menningu og er það hæsta hlutfall af 20 Evrópuríkjum sem borin eru saman í rannsókninni, nærri helmingi hærra hlutfall en meðaltal Evrópusambandsríkjanna.

Ágúst segir að þetta sýni enn betur hvað þetta sé umsvifamikið, raunverulega miklu meira en fólk geri sér grein fyrir og bókaútgáfa sé einn hluti af þessu.

Aldrei hafa jafn margar bækur verið gefnar út hér á landi og í fyrra. Bókaútgáfa á hverja þúsund íbúa á Norðurlöndunum er mest hér á landi. Hér eru gefnar út nærri þrefalt fleiri bækur en í Svíþjóð og í Noregi. Um helmingi fleiri en í Danmörku og í Finnlandi.

En á Íslandi er ekki bara mest bókaútgáfa og mestur lestur heldur líka leikhúsferðir, safnaheimsóknir, kvikmyndaáhorf. Það er eiginilega sama hvar borði sé niður, Ísland er alls staðar fremst hvað varðar menningarneyslu. Menningin er stór hluti af hagkerfinu. Til samanburðar er sjávarútvegur 11% af landsframleiðslu. Landbúnaður er 1% en menning er 4% af landsframleiðslu.