Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Lést í slysi í Steinsholtsá

31.08.2018 - 18:02
Innlent · Slys · Suðurland
Mynd með færslu
Mynd af vettvangi Mynd: Hermann Valsson - Aðsend mynd
Kona lést í slysi í Steinsholtsá í dag eftir að hún og eiginmaður hennar fóru í ána við Þórsmörk um miðjan dag. Fjölmennt björgunarlið var sent í Þórsmörk um klukkan hálfþrjú eftir að fólkið, sem eru erlendir ferðamenn, reyndu að þvera Steinsholtsá. Töluvert vatn var í ánni.

Bíll þeirra flaut upp og rak niður ána. Fólkið flúði út úr bílnum. Maðurinn komst á þurrt en konan staðnæmdist á grynningum. Að sögn vitna virtist þá hún meðvitundarlaus. Maðurinn var blautur og kaldur þegar björgunarlið kom á staðinn. Björgunarsveitarbíl þurfti til að komast að konunni, að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurlandi. Hún var flutt með þyrlu á spítala í Reykjavík og var úrskurðuð látinn við komuna þangað.