Lengsta umræða í sögu Alþingis

05.06.2019 - 16:32
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Umræðan um þriðja orkupakkann er orðin sú lengsta í sögu Alþingis. Umræðan er nú orðin lengri en deilurnar um Icesave-samningana sem klufu flokka og ollu útbreiddum deilum í samfélaginu árið 2010. Sú umræða stóð í 135 klukkustundir og níu mínútur. Þegar klukkuna vantaði 28 mínútur í fimm í dag hafði umræðan um þriðja orkupakkann staðið í 135 klukkustundir og tíu mínútur, og var sennilega hvergi nærri lokið.

Umræðan á Alþingi um þriðja orkupakkann hófst á ný klukkan hálf fjögur í dag. Þá hafði orðið nokkurra daga hlé á umræðu um málið eftir að það einokaði alla umræðu á Alþingi í nærri hálfan mánuð þar til á föstudag. Síðustu daga hafa formenn flokkanna leitað leiða til að ná samkomulagi um framhald þingstarfa. Þær viðræður leiddu ekki til lausnar. Þriðji orkupakkinn var því settur aftur á dagskrá en hann hafði verið settur til hliðar til að hleypa öðrum málum að og draga úr spennu á þinginu.

Þingmenn Miðflokksins hafa talað í yfir 111 klukkustundir af þeim 135 klukkustundum sem umræðan um þriðja orkupakkann hefur staðið yfir. Allir þingmenn flokksins eru ýmist búnir að halda ræðu í dag eða komnir á mælendaskrá til að ræða málið. Einn þeirra, Þorsteinn Sæmundsson, er kominn aftur á mælendaskrá eftir að hafa haldið ræðu. Hann bíður eftir að flytja sína 49. ræðu.

Lengstu umræður á Alþingi, eins og staðan var 16:32 miðvikudaginn 5. júní.

Umræðan um þriðja orkupakkann er um margt ólík öðrum málum á lista yfir þau tólf mál sem fengið hafa mesta umræðu á Alþingi frá 1991. Sérstaklega fyrir þær sakir að aðeins einn flokkur stendur að málþófinu.

Í fyrri deilumálum hefur það oftast verið svo að deilurnar standa milli stjórnar og stjórnarandstöðu, eða jafnvel þvert á flokkalínur. Þetta sást vel í umræðum um tvo af helstu deilumálum þingsögunnar, Icesave-samningunum 2010 og aðild að samningnum um Evrópskra efnahagssvæðið veturinn 1993 og 1994. Umræðan um þriðja orkupakkann er nú orðin nær hálfum öðrum sólarhring lengri en umræðan um EES-samninginn. 

Skrifstofa Alþingis hefur haldið utan um ræðutímalengd í gagnagrunni sínum frá því Alþingi var sameinað í eina deild árið 1991. Ekki eru tiltækar upplýsingar um lengstu umræður á Alþingi fyrir þann tíma. Fróðir menn sem þekkja vel til þessara efna kannast ekki við önnur dæmi um svo langar umræður. Til dæmis var bent á að harðvítugar deilur um landhelgissamning við Breta í upphafi sjöunda áratugar stóðu í tæpar 40 klukkustundir. 

Mótmæli á Austurvelli vegna IceSave.
Frá mótmælulm á Austurvelli  Mynd: RÚV
Umræðurnar um Icesave voru þær langlengstu í sögu Alþingis þar til umræðan um þriðja orkupakkann tók fram úr henni.
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi