Lengsta sund háhyrnings í heimi: frá Íslandi til Beirút

21.02.2020 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: Robert Pittman - Wikimedia Commons
Einn íslensku háhyrninganna fjögurra sem sáust við Genúa á Ítalíu í desember er nú kominn til Líbanons, með yfir 8000 kílómetra sund að baki. Þetta er lengsti leiðangur háhyrnings sem vitað er um.

Víðförlasti háhyrningur í heimi

Háhyrningurinn sást síðast við Íslandsstrendur 2017 og sást fyrst við Beirút fyrir tveimur dögum. Þessi 8000 kílómetra leiðangur er sá lengsti sem vitað er um, 2500 kílómetrum lengri en fyrra met.

Marie Mrusczok er forsprakki Orca Guardians á Íslandi. Hún bar kennsl á dýrið með hjálp ljósmynda af bakugga þess sem teknar voru úti fyrir Snæfellsnesi 2017.

Háhyrningar óalgengir inn á Miðjarðarhafi

Marie segir óvenjulegt að háhyrningur fari þessa leið.

„Háhyrningar hafa í raun aldrei sést áður við Líbanon. Það voru sjómenn sem sögðust sjá þá þar á sveimi á níunda áratugnum, en ekkert var staðfest. Þannig að þetta er óvenjulegt. Það var líka skrítið þegar þeir sáust við Ítalíu. Háhyrningar synda yfirleitt ekki svona langt inn á Miðjarðarhafið,“ segir Marie.

Hún segir þá að háhyrningarnir hafi virst halda sig þar norðan til, líkt og þeir séu að reyna að komast aftur á norðurslóðir.

Hinir hvalirnir líklega dauðir og þessi við bága heilsu

Þegar hvalurinn sást við Genúa í desember virtust hann og félagar hans við bága heilsu. Marie segir líklegt að hinir háhyrningarnir hafi drepist og að kvíga hafi nýlega skolað á land við Líbanon sem talin er úr þessum hópi.

Hún segir að hvalurinn úti fyrir Beirút er í slæmu ástandi, hnakkaspikið virðist farið sem vísar til þess að hann finni ekki æti.

„Við vitum að háhyrningar alast á síld og þeir hafa sést éta hana vestan við Ísland. Þannig það er líklega erfitt fyrir þá að finna æti í Miðjarðarhafinu,“ segir hún.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi