Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Lengra komið en fyrri viðræður

02.01.2017 - 09:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formlegar stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hefjast í dag. Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 að viðræðurnar  væru lengra komnar en fyrri stjórnarmyndunarviðræður sem reyndar hafa verið að loknum kosningum.

„Það samstarf hefur gengið ágætlega en það er ekki búið að klára það,“ sagði Óttarr um viðræður flokkanna þriggja. „Þess vegna er verið að setjast niður til viðræðna til að sjá hvort það sé ekki hægt að ná endanlegri lendingu. Ef það er eitthvað sem maður hefur lært síðustu tvo mánuðina er það að það er ekkert tilbúið fyrr en það er tilbúið.“

Ákveðin sátt um hugmyndir

„Það hefur ekki náðst saman um alla málaflokka. Það er svo sem ekkert leyndarmál,“ sagði Óttarr. Hann nefndi að strandað hefði á sjávarútvegsmálum, Evrópumálum í fyrri viðræðum flokkanna og að mikið hefði verið rætt um heilbrigðismál og efnahagsmál.

Óttarr sagðist telja að allir flokkar hafi gefið eitthvað eftir þegar liðið hafi frá kosningum. Drátturinn á myndun nýrrar ríkisstjórnar sé vegna þess að flokkar hafi verið tregir til að gefa eftir. Óttarr var spurður út í landbúnaðarmálin og bent á fylgisaukningu Bjartrar framtíðar eftir að hún einn flokka stóð gegn nýjum búvörusamningi. Óttarr sagði þetta mikilvægt mál og sagði að allir flokkar hefðu kynnt sín helstu stefnumál til leiks fyrir kosningar. „Ég held að það hafi verið vitað fyrir fram að það yrði ekki úr öllu.“ Hann segir menn þurfa að velja og hafna hverju þeir nái fram og hverju ekki.

„Mér sýnist að blöðin hafi verið duglegri um helgina að fá fréttir heldur en ég,“ sagði Óttarr aðspurður hvort samkomulag hefði náðst um að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði haldin um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Fréttablaðið sagðist í morgun hafa heimildir fyrir því. „Það er ekki búið að skrifa undir stjórnarsáttmála, það er verið að ræða hann,“ sagði Óttarr án þess að svara því beint út hvort samkomulag hafði náðst um þjóðaratkvæðagreiðslu. „Það hefur myndast ákveðin sátt um hugmyndir, meðal annars í þessu.“

Morgunblaðið heldur því fram í dag að Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn hafi rætt saman og hyggist freista þess að ná viðræðum við Sjálfstæðisflokkinn um stjórnarmyndun. Það hefur ekki fengist staðfest. „Mér finnst ekki óeðlilegt að menn hugsi og eitthvað svona en það hefur verið þannig í mínum bókum að þegar einhver er með stjórnarmyndunarumboð þá er eðlilegt að hann fái frið til að vinna með það. Þegar eru formlegar viðræður í gangi séu menn að sinna þeim. En við höfum séð allar útgáfur af þessu síðustu vikurnar.“

Mikill þingmeirihluti ekki endilega styrkur

Ítrekað hefur verið bent á að ríkisstjórn flokkanna þriggja hefði einungis eins sætis meirihluta á þingi. Óttarr sagði í Morgunútvarpinu að síðasta stjórn hefði haft drjúgan þingmeirihluta en samt komið litlu í gegn. „Þannig að það er nú ekkert gefið. Ég held að sumu leyti geti það verið styrkleiki fyrir svona stjórn að hún samanstendur af ólíkum flokkum. Meirihlutinn er naumur sem setur í raun og veru þá kröfu á okkur að vanda vel til verka og reyna að vinna vel, líka með þeim sem eru í stjórnarandstöðunni.“