Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Lendingarbúnaðurinn sem gaf sig var glænýr

09.02.2020 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Lendingarbúnaður Boeing vélar Icelandair, TF FIA, sem gaf sig í lendingu á föstudag, var glænýr. Skipt hafði verið um hann í umfangsmikilli skoðun sem vélin fór í í Kanada í lok síðasta árs. Þetta staðfestir forstjóri Icelandair. Fullyrt er á erlendri flugsíðu að bolta hafi vantað á mikilvægan stað í búnaðinum.

Rauðu hættustigi var lýst yfir á Keflavíkurflugvelli síðdegis í gær eftir að hægra aðalhjól flugvélar Icelandair, sem var á leið heim frá Berlín, brotnaði í lendingu. Engin slys urðu á fólki en 166 manns voru um borð í vélinni. 

Umfangsmikil skoðun í Kanada í lok síðasta árs

Flugvélin var framleidd um aldamótin en 19. nóvember síðastliðinn fór hún í skoðun í Kelowna í Kanada. Þar var meðal annars skipt um lendingarbúnað. Búnaðurinn sem gaf sig í lendingu á föstudag var því nýr. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að um reglubundið eftirlit hafi verið að ræða.

„Já hann var nýr. Það var skipt um hann í þessari skoðun. Það er skipt um lendingarbúnað í flugvélum á ákveðnu árabili og í þessari skoðun var kominn tími á það með þessa vél,“ segir Bogi Nils.

Fullyrt að bolta hafi vantað í lendingarbúnaðinn

Vélin var aftur tekin í umferð í byrjun janúar og flaug rúmlega sextíu ferðir áður en búnaðurinn gaf sig á Keflavíkurflugvelli á föstudag. Flugsíðan Aviation Herald birti í gær myndir af atvikinu og greinir frá því að bolta hafi vantað í lendingarbúnaðinn. Bogi Nils kveðst ekki geta tjáð sig um hvort það sé rétt.

„Það er náttúrlega ýmislegt sem kemur fyrir vélina þegar atvikið á sér stað. Þannig að hún lítur ekki út eins eftir atvikið eins og fyrir. Myndirnar tala sínu máli. En eins og ég segi, ég get ekki tjáð mig meira um atvikið heldur en þetta. En er þetta eitt af því sem er til rannsóknar?  Allt er til rannsóknar er varðar atvikið, sem snýr að lendingarbúnaði og þess háttar,“ segir Bogi. 

Rannsóknin á frumstigi en gæti tekið nokkur ár

Ragnar Guðmundsson, sem stýrir rannsókn málsins hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, sagði í  hádegisfréttum RÚV í gær að rannsóknin væri á frumstigi, en að hún gæti tekið eitt til þrjú ár. Flugvélin er mikið skemmd og hefur verið tekin úr umferð. Flugritar vélarinnar verða sendir til greiningar á næstunni.