Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Leitað að ferðamanni án árangurs í dag

11.08.2019 - 15:40
Mynd: Kristján Þór Ingvarsson / RÚV
Leit að erlendum ferðamanni við Þingvallavatn hefur verið hætt í dag. Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, staðfestir að björgunarsveitarmenn séu á heimleið og verkefni dagsins búin. Lögregla tekur ákvörðun á morgun um framhaldið og næstu skref, segir hann. Í tilkynningu á Facebook síðu lögreglunnar á Suðurlandi segir að björgunarsveitarmenn hafi leitað að erlendum ferðamanni án árangurs í dag. Mögulega verði leitað á morgun með aðstoð kafara.

Tugir björgunarsveitarmanna gengu með vatninu í dag og einnig var leitað úti á því. Nokkuð hvasst hefur verið á Þingvöllum og vatnið úfið svo erfitt hefur verið fyrir leitarmenn að athafna sig þar. 

Mannlaus bátur og bakpoki fundust á floti á vatninu í gær. Bakpokinn er í eigu erlends ferðamanns samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Ekki hefur tekist að hafa uppi á honum. Síðast er vitað um ferðir hans á tjaldsvæði á Þingvöllum þar sem hann gisti í fyrrinótt. Talið er að hann hafi verið einn á ferð.

Fréttin hefur verið uppfærð.