Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Leita að þjóðlegum réttum Íslendinga

Mynd: N.Richter / Instagram

Leita að þjóðlegum réttum Íslendinga

20.04.2018 - 13:30

Höfundar

„Sitt sýnist hverjum þegar verið er að tala um þjóðlega rétti, þannig að við erum að reyna að taka svolítið púlsinn á því hvað þjóðinni í dag finnst vera þjóðlegur réttur,“ segir Brynja Laxdal framkvæmdarstjóri Matarauðs Íslands, verkefnis sem stendur fyrir samkeppni um íslenska þjóðlega rétti.

Samkeppnin fór af stað á miðvikudag og er verkefninu ætlað að draga fram sérstöðu íslensks hráefnis og matarmenningar. Á vefnum mataraudur.is er fólk hvatt til að senda inn hugmyndir og uppskriftir að réttum úr íslensku hráefni. Bestu réttirnir munu svo rata á matseðla veitingastaða við þjóðveginn hringinn í kringum landið. „Þetta mega vera réttir sem eru byggðir á hefðum, eða innblásnir af samtímanum og mega vera hefðbundnir eða óhefðbundnir,“ segir Brynja og bætir við að allar hugmyndir séu vel þegnar. Verkefnið er unnið í samstarfi við nemendur í Hótel og matvælaskólanum sem koma til með að velja fimmtán rétti úr hópi innsendra hugmynda. „Þau ætla að elda það fyrir dómnefnd, sem síðan velur fimm rétti,“ segir hún. „Rúsínan í pylsuendanum er að við erum komin í samstarf við veitingastaði víðsvegar um landið, minni veitingastaði. Þeir ætla að velja sér einn rétt til að hafa á matseðlinum sínum í sumar.“

Mynd með færslu
 Mynd: N.Richter - Instagram
Margir Íslendingar eiga æskuminningar tengdar pönnukökum

Hún segir að margir tengi þjóðlega rétti við súrmatinn og það sé vissulega hluti af matarhefð Íslendinga: „þetta að sýra matinn var bara geymsluaðferðin okkar.“ En matarmenning þjóðarinnar er þó nokkuð umfangsmeiri og Brynja bendir á í því samhengi að Íslendingar hafi verið með matjurtagarða um árið 1750, en þá hafi Björn Halldórsson í Sauðlauksdal skrifað fræðirit um matjurtagarða. „Við vorum með kornrækt á landnámsöld og borðuðum jurtir og fleira þannig að grænmetisréttir eiga alveg fullan rétt á sér sem þjóðlegir réttir.“

Mynd með færslu
 Mynd: N.Richter - Instagram
Rjómi og bláber er vinsæll eftiréttur á íslenskum heimilum á haustin

Hún segir Íslendinga einnig hafa notað hvönnina og melgresi, en hið síðarnefnda var notað við mjölframleiðslu. „Það er ýmislegt hægt að gera, maður þaf bara að kafa svolítið,“ segir Brynja. Hún bendir á að markmiðið með átakinu sé meðal annars að fá fólk til að setjast niður og tala saman um matarminningar. „Við eigum öll matarminningar frá okkar æsku.“

„Við erum alltaf að tala um veðrið, getum við ekki farið að tala bara um matarmenningu?“

Mynd með færslu
 Mynd: N.Richter - Instagram
Brauðtertan hefur verið vinsæll veisluréttur á borðum Íslendinga um árabil

Áhugasamir geta sem fyrr segir farið inn á vefsíðuna mataraudur.is en þar er hægt að senda inn uppskrift eða hugmynd. Allar hugmyndirnar verða síðan birtar þann 11. maí og í framhaldinu munu notendur síðunnar geta tekið þátt í að velja þann rétt sem þeim líkar best.

Rætt var við Brynju Laxdal í Síðdegisútvarpi Rásar 2 þann 18. apríl.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Sprengidagur í Múlakaffi árið 1990

Menningarefni

Sjávarréttastaðir vinsælastir árið 2017

Mannlíf

Borða súpu án skeiðar og þurrka sér í dúkinn

Neytendamál

Íslenskur matur á stærsta matartorgi heims