Samkeppnin fór af stað á miðvikudag og er verkefninu ætlað að draga fram sérstöðu íslensks hráefnis og matarmenningar. Á vefnum mataraudur.is er fólk hvatt til að senda inn hugmyndir og uppskriftir að réttum úr íslensku hráefni. Bestu réttirnir munu svo rata á matseðla veitingastaða við þjóðveginn hringinn í kringum landið. „Þetta mega vera réttir sem eru byggðir á hefðum, eða innblásnir af samtímanum og mega vera hefðbundnir eða óhefðbundnir,“ segir Brynja og bætir við að allar hugmyndir séu vel þegnar. Verkefnið er unnið í samstarfi við nemendur í Hótel og matvælaskólanum sem koma til með að velja fimmtán rétti úr hópi innsendra hugmynda. „Þau ætla að elda það fyrir dómnefnd, sem síðan velur fimm rétti,“ segir hún. „Rúsínan í pylsuendanum er að við erum komin í samstarf við veitingastaði víðsvegar um landið, minni veitingastaði. Þeir ætla að velja sér einn rétt til að hafa á matseðlinum sínum í sumar.“