Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Leita að fólki til að staðsetja mörg þúsund örnefni

20.02.2020 - 11:00
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Af hálfri milljón íslenskra örnefna á skrá eru einungis um 130 þúsund þeirra staðsett á korti. Landmælingar Íslands leita nú að fólki sem er kunnugt staðháttum til þess að staðsetja örnefnin áður en vitneskjan glatast.

Nýju lífi hefur verið blásið í það verkefni að staðsetja íslensk örnefni með tilkomu nýs skráningartóls, sem gerir það unnt að skrá staðsetningu þeirra heiman frá sér í gegnum tölvu. Landmælingar hafa fundið staðkunnugt fólk vítt og breitt um landið, en betur má ef duga skal. Nær 400 þúsund örnefni eru óstaðsett og það er ekki tæmandi listi.

Fært af pappír og inn á rafrænan gagnagrunn

Bjarney Guðbjörnsdóttir, sérfræðingur í landupplýsingum hjá Landmælingum, segir verkefnið eiga sér langa sögu.

„Fyrir nokkrum áratugum fóru starfsmenn frá Örnefnastofnun. Þeir fóru á flakk um landið, hittu bændur, lögguðu um jarðirnar og skráðu niður örnefnalýsingar þannig að það komst allt á pappír. Núna erum við að koma þessu á stafrænt form á korti,“ segir hún.

Ekki seinna vænna

Bjarney segir ekki seinna vænna, séu ekki hafðar hraðar hendur er hætta á að mikil vitneskja glatist með elstu kynslóð dagsins í dag.

Einnig er hægt að merkja staðsetninguna inn á pappír og hún svo færð á rafrænt form. Aðrar hugvitssamar leiðir hafa einnig verið nýttar til kortlagningar.

Kort með örnefnum merktum inn með títuprjónum
Hér má líta kort þar sem örnefnum er komið fyrir með títuprjónum

Örnefni standa fólki nærri

Ekki er sama hvort það er fjall eða fell, hnúkar eða hnjúkar og segir Bjarney mikilvægt að vanda til verksins.

„Þetta er mikið hjartans mál hjá fólki að bjarga þessum menningararfi og fólk vandar sig mikið við að hjálpa okkur. Vill að hlutirnir séu réttir.“

Hún tekur undir það að örnefnin standi fólki nærri.

"Já, algjörlega, og fólk kemur með leiðréttingar ef það er eitthvað rangt í grunninum. Það getur eitthvað verið rangt í grunninum einfaldlega vegna þess að fólk var að skanna af pappírskortum og þá lendir það á vitlausum stað. Þá viljum við endilega fá leiðréttingar frá staðkunnugum," segir Bjarney.

Hægt er að kynna sér verkefnið og bjóða fram krafta sína hér.