Nýju lífi hefur verið blásið í það verkefni að staðsetja íslensk örnefni með tilkomu nýs skráningartóls, sem gerir það unnt að skrá staðsetningu þeirra heiman frá sér í gegnum tölvu. Landmælingar hafa fundið staðkunnugt fólk vítt og breitt um landið, en betur má ef duga skal. Nær 400 þúsund örnefni eru óstaðsett og það er ekki tæmandi listi.
Fært af pappír og inn á rafrænan gagnagrunn
Bjarney Guðbjörnsdóttir, sérfræðingur í landupplýsingum hjá Landmælingum, segir verkefnið eiga sér langa sögu.
„Fyrir nokkrum áratugum fóru starfsmenn frá Örnefnastofnun. Þeir fóru á flakk um landið, hittu bændur, lögguðu um jarðirnar og skráðu niður örnefnalýsingar þannig að það komst allt á pappír. Núna erum við að koma þessu á stafrænt form á korti,“ segir hún.
Ekki seinna vænna
Bjarney segir ekki seinna vænna, séu ekki hafðar hraðar hendur er hætta á að mikil vitneskja glatist með elstu kynslóð dagsins í dag.
Einnig er hægt að merkja staðsetninguna inn á pappír og hún svo færð á rafrænt form. Aðrar hugvitssamar leiðir hafa einnig verið nýttar til kortlagningar.