Leit í dag bar ekki árangur

03.01.2020 - 19:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Um 150 björgunarsveitarmenn tóku þátt í leit að Andris Kalvan á Snæfellsnesi í dag. Hann er enn ófundinn og ekki hefur tekist að þrengja leitarhringinn.

Leit hófst við birtingu og lauk á fimmta tímanum í dag. Bíll Andris fannst mannlaus við Heydalsveg í Hnappadal á mánudag. Andris er á sextugsaldri og búsettur í Reykjavík. Ekki hefur heyrst frá honum síðan fyrir helgi. Hann var einn á ferð. Ægir Þór Þórsson, stjórnandi aðgerða, segir að ekki sé vitað hvert hann ætlaði.

„Við vitum að hann er vanur á fjöllum, gengur á fjöll reglulega. Þannig það er allt sem bendir til þess að hann hafi farið í fjallgöngu, en annars höfum við ekki fundið neinar vísbendingar og vitum mjög lítið um ferðir þessa manns,“ segir hann.

Þurftu að gera hlé vegna veðurs

Um 250 tóku þátt í leit á mánudag og var þyrla Landhelgisgæslunnar ræst út á þriðjudag. Veðurskilyrði hafa verið erfið og gera þurfti hlé á leitinni í um sólarhring. Í dag slotaði veðri og voru leitarskilyrði loks góð. Björgunarsveitarfólk af öllu Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og norðan úr Húnavatnssýslu tók þátt í leitinni.

Leitað er með gönguhópum, sexhjólum og fjórhjólum. Ægir Þór segir að leitað sé fyrir ofan veginn þar sem bíllinn fannst.

„Það hefur snjóað svolítið á svæðinu og það gerir leitina töluvert erfiðari fyrir okkar hópa að reyna að finna hann,“ segir Ægir.

Veður versnar aftur á morgun

Leitarsvæðið er stórt og eru þar nokkrar þekktar gönguleiðir. Fjallalengjan á milli Hnappadals og Hítardals var þrædd í dag að Haffjarðardal og Kaldárdal meðtöldum. Ekki verður leitað á morgun vegna veðurs en appelsínugul viðvörun er í gildi við Breiðafjörð.

Ægir segir að ekki hefur verið ákveðið hvort leitað verður á sunnudag.

„Við munum bara meta það með lögreglu. Við munum skoða hvernig veðurskilyrði eru næstu daga og sjá hvað framhaldið verður,“ segir hann.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi