36 hafa fundist látin og yfir 20 eru slösuð eftir að sjö hæða hús sem verið var að reisa hrundi í strandbænum Kep í Kambódíu á föstudag. AFP fréttastofan hefur eftir Hun Sen, forsætisráðherra Kambódíu, að leit sé nú hætt í rústunum.
Hann lofar fjölskyldum fórnarlambanna jafnvirði um sex milljóna króna í skaðabætur, og hinir slösuðu fá um tvær og hálfa milljón. Hun Sen greindi fréttamönnum frá því að verkstjórinn hafi látið lífið í slysinu. Lögreglan handtók eigendur hússins, kambódískt par sem hugðist reisa gistiheimili. Þau verða yfirheyrð vegna hrunsins.
Leit stóð yfir í nærri tvo sólarhringa. Hundruð hermanna voru kallaðir út til að aðstoða við leitina.
Rétt rúmlega hálft ár er síðan nærri þrjátíu létu lífið þegar hús í byggingu hrundi.