Ólafur Egill Egilsson, handritshöfundur hefur tekið að sér leikstjórn verksins. Upphaflega stóð til að Kristín Eysteinsdóttir, borgarleikhússtjóri, leikstýrði því.
„Við Ólafur komumst að þeirri niðurstöðu að hann myndi leikstýra verkinu,“ segir Kristín í samtali við Menningarvef RÚV. „Ástæða þessara breytinga er sú að ég er að sækja um stöðu þjóðleikhússtjóra.“ Kristín segir að út frá hagsmunum leikhússins hafi það því verið skynsamlegast að Ólafur tæki við leikstjórn verksins, því mikilvægt sé að sá leikstjóri sem fylgi sýningunni í höfn sinni undirbúningsvinnu við uppsetninguna, sem sé þegar hafin. „Að sjálfsögðu veit ég ekki hvernig ráðningarferlið varðandi Þjóðleikhúsið fer enda margir hæfir umsækjendur sem sækjast eftir stöðunni en með þessu vildum við tryggja það að sýningunni sé fylgt eftir af sama aðila alla leið til enda.“
Mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf út lista yfir umsækjendur um starf þjóðleikhússtjóra 1. maí. Kristín Eysteinsdóttir er á meðal sjö umsækjenda. Ráðning tekur gildi 1. janúar 2020 og er til fimm ára.
Stjórn leikhússins hefur samþykkt leikstjóraskiptin og segir Kristín að dramatúrg verði Ólafi Agli til halds og trausts. „Ólafur er auðvitað þaulreyndur í leikhúsinu og ég treysti honum afar vel til verksins, hann er margverðlaunaður höfundur og leikstjóri en það er mikið verk að bæði skrifa og leikstýra verki af þessari stærðargráðu.“
Bubbinn í okkur öllum
Verkið fjallar um náin tengsl tónlistar og texta Bubba Morthens við valda kafla í sögu þjóðarinnar undanfarin 40 ár. Ólafur Egill hefur að undanförnu unnið rannsóknarvinnu vegna verksins á Þjóðarbókhlöðunni og segir Kristín að það hafi runnið upp fyrir honum að það hafi varla komið sá dagur á löngu tímabili þar sem ekki hafi verið fjallað um Bubba í fjölmiðlum.
„Bubbi er samofinn þjóðarsálinni í öllum sínum ólíku birtingarmyndum,“ sagði í orðsendingu Ólafs Egils þegar verkið var kynnt á blaðamannafundi í borgarleikhúsinu snemma á árinu. „[Bubbi] er kamelljón sem alltaf er samt hann sjálfur og ekkert annað. Saga og sögur Bubba eru kannski um leið sögur okkar allra. Sögur Íslands frá verbúð yfir í víðáttubrjálæði. Frá blindskerjum til regnbogastræta. Hlýrabolum til axlapúða og aftur til baka. Í þessu verkefni tökum við kúrsinn á að finna Bubbann í okkur öllum og okkur öll í honum. Fylla sviðið af tónlist, ljóðum og litum þessa einstaka listamanns.“
Verkið verður frumsýnt 13. mars á næsta ári. Meðal leikara sem fara með hlutverk í sýningunni eru Aron „Mola“ Ólafsson, Björn Stefánsson, Halldóra Geirharðsdóttir, Jóhann Sigurðarson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Rakel Björk Björnsdóttir og Valur Freyr Einarsson.