Hallveig Guðbjört Ingimarsdóttir, leikskólastjóri, segir að gripið hafi verið til þess ráðs að reisa viðbyggingu þegar leikskólinn fylltist.
„Við bara tókum fleiri og fleiri börn þangað til allir voru að springa, börn, fullorðnir og starfsfólkið. Það gekk ekki að bjóða börnunum upp á að vera í svona mikilli kös, svona þrengslum. Þá var byggður hérna kálfur og þangað var elsta deildin sett. Og enn eignuðust foreldrarnir fleiri og fleiri börn og bærinn stækkaði. Aftur stóðum við frammi fyrir því 2016-2017 að þetta gengi ekki lengur,“ segir hún.
Grípa þurfti til frekari aðgerða og var elsta deild leikskólans flutt í grunnskólann, Patreksskóla, og þannig sett bót á málin. Þar með verða 38 börn frá fjórtán mánaða upp í fjögurra og hálfs árs í Arakletti í vetur. Hallveig segir þetta ekki ákjósanlegt og að ljóst sé hvað þurfti að gera.
„Nýr leikskóli. Flottur, nýr leikskóli. Ég er meira að segja búin að benda sveitarfélaginu hvar hann á að vera. En hvað verður, það veit ég ekki,“ segir hún.