Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Leikskólastjórar mótmæla kjaraskerðingu

20.12.2011 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Leikskólastjórar fjölmenntu í ráðhús Reykjavíkur og mótmætu kjaraskerðingu sem þeim er gert að ráðast í gagnvart starfsfólki sínu fyrir áramót. Borgarstjóri segir að málið tengist kjarasamningi og eigi ekki að koma á óvart.

Leikskólastjórarnir hittu borgarstjóra og borgarfulltrúa í dag og afhentu undirskriftarlista frá leikskólastjórnendum í Reykjavík þar sem þeir mótmæla niðurfellingu á eftirvinnugreiðslum leikskólakennara. Nú sé leikskólakennurum gert að segja upp yfirvinnutímum sem leikskólakennarar og aðrir starfsmenn leikskólanna hafa fengið undanfarið. Það samsvari um það bil 10% launaskerðingu.

Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður félags stjórnenda leikskóla segir að nóg sé komið af niðurskurðinum. „Niðurskurðurinn á síðust árum hefur verið rökstuddur með þessu. Það þurfti að sameina leikskóla og fækka stjórnendum til þess að kosta þessa yfirvinnutíma. Það þurfti að skera niður veikindaafleysingu og sitthvað fleira sem allaf hefur verið rökstutt með þessu að þetta semsagt átti að standa straum af kostnaði við neyslu,“ segir Ingibjörg.

Jón Gnarr borgarstjóri segir að stefnt sé að því að bæta starfsumhverfi leikskólakennara. „Þetta bara tengist kjarasamningi leikskólakennara. Og eins og ég hef sagt þá var það mjög skýrt frá hendi borgarinnar að kæmi þessi launahækkun til þá yrðu þessar yfirborganir teknar út. En þeir segja að það sé þegar búið að skera af þeim allt sem mögulegt sé að skera og nú sé ráðist í þennan lið og þar sé farið yfir strikið. Það er bara ekki rétt,“ segir Jón Gnarr.