Leiklistarveisla á jaðrinum

Mynd: Andri Freyr / Andri Freyr

Leiklistarveisla á jaðrinum

14.07.2019 - 16:00

Höfundar

Þorvaldur Sigurbjörn Helgason fór á stúfana á Reykjavík Fringe festival sem fram fór á dögunum og sagði hátíðina fjölbreytta og skemmtilega. „Það eru algjör forréttindi að fá tækifæri til að sjá svo ótalmargar ólíkar sýningar allstaðar að úr heiminum.“

Þorvaldur Sigurbjörn Helgason skrifar:

Sumrin eru yfirleitt frekar rólegur tími í sviðslistasenunni hér á landi; flest atvinnuleikhúsin eru lokuð frá byrjun júní til ágústloka og því lítið að sjá fyrir leikhúsþyrsta að undanskyldu stöku túristasýningum leiknum á ensku. Á þessu hefur þó orðið breyting því nú hefur enn ein hátíðin bæst við allar þær fjölmörgu sem haldnar eru víða um landið yfir sumartímann. Þetta er sviðslistahátíðin Reykjavík Fringe sem haldin var í annað sinn á milli 29. júní og 6. júlí. Fyrirmyndin að hátíðinni er hin svokallaða Edinburgh Festival Fringe, stærsta listahátíð heims sem haldin hefur verið árlega allt frá 1947.

Fringe hátíðir hafa sprottið upp í fjölmörgum öðrum löndum og byggja þær flestar á svipaðri hugmyndafræði og upprunalega hátíðin í Edinborg, þetta eru grasrótarhátíðir sem taka á móti öllum umsóknum í öllum mögulegum listformum en yfirleitt með áherslu á sviðslistir. Það sama var uppi á teningnum á Reykjavík Fringe þar sem sjá mátti rúmlega 100 sýningar á meira en 17 sýningarstöðum víðsvegar um höfuðborgina og komu listhóparnir bæði erlendis frá og innanlands. Það gefur að skilja að það er heldur bjartsýnt að ætla sér að fjalla um heila listahátíð í einum pistli en ég ætla þó að gera mitt besta til að gera grein fyrir hátíðinni og þeim átta viðburðum sem ég náði að sjá á henni.

Mörg ókunnug andlit

Ég byrjaði hátíðarvikuna á því að fara á Kynningarkvöld sunnudaginn 30. júní þar sem hver og einn listamaður eða hópur steig á stokk í tvær mínútur til að kynna sitt verk. Ég hugsaði með mér að þetta gæti bæði verið gott tækifæri til að fá einhverja heildaryfirsýn á hátíðina og myndi eflaust auðvelda mér að velja sýningar til að sjá. Rafmögnuð stemming var í loftinu þegar ég fékk mér sæti í yfirfullum sal Tjarnarbíós og það var bæði skemmtileg og sérstök upplifun þegar ég áttaði mig á því að ég hef sennilega aldrei fyrr séð jafn mörg ókunnug andlit á sviðslistaviðburði hér á landi. Ég geri ráð fyrir að langflestir á kynningarkvöldinu hafi annaðhvort verið listamenn eða þátttakendur á hátíðinni en margir þeirra voru klæddir upp, eins og t.d. konan sem sat mér við hlið íklædd loðfeldi og keðjum.

Framkvæmdastjóri hátíðarinnar, Nanna Gunnarsdóttir, stýrði kynningunum með fagmannlegri hendi og passaði vel upp á að listamennirnir færu ekki yfir tveggja mínútna tímarammann. Sumir listamennirnir stigu sjálfir á svið á meðan aðrir létu sér nægja að spila kynningarmyndband og nokkrir gerðu hvort tveggja. Það var einstaklega gaman að sjá hversu mikil fjölbreytni var meðal sýninganna og sjálfra kynninganna en sumir listamennirnir nýttu sér hreinlega tækifærið til að flytja einskonar samþjappaða útgáfu af verki sínu og voru greinilega mjög sjóaðir í slíku á meðan aðrir voru gjörsamlega úti á túni og virtist líða hálf óþægilega á sviðinu. Slíkt er þó auðvitað enginn mælikvarði á raunveruleg gæði verkanna heldur aðallega á það hversu góðir listamennirnir eru að selja sín eigin verk.

Líkamar jaðarsettra hópa fá rödd

En að sýningunum sjálfum; daginn eftir sá ég tvö verk sem voru eins ólík og hugsast getur. Hið fyrra var feminíski gjörningurinn THIS BODY eftir sænska listakollektífið Systeria. Verkið var flutt í kjallaranum á Hard Rock en umfjöllunarefni þess er kvenlíkaminn frá sjónarhorni minnihlutahópa svo sem litaðra kvenna og kynsegin fólks. Flytjendur verksins eru tvær manneskjur sem tilheyra sitt hvorum hópnum og í verkinu fjalla þær á persónulegan hátt um eigin upplifun af líkama sínum og hlutgervingu hans. Flytjendurnir standa á sviðinu og framkvæma einfaldar athafnir eins og að skrifa í stílabók á meðan rödd í hljóðkerfi talar um þá margvíslegu valdbeitingu sem líkamar jaðarsettra minnihlutahópa verða fyrir.

Innblásturinn að THIS BODY var Me Too hreyfingin en yfirlýst markmið verksins er að leyfa röddum þeirra samfélagshópa sem voru minna áberandi í hreyfingunni heldur en sískynja hvítar konur að heyrast. Umfjöllunarefni THIS BODY er svo sannarlega þarft í allri samfélagslegri og listrænni umræðu dagsins í dag en það var upplifun undirritaðs að verkið næði þó aldrei almennilega að nálgast efnið með aðferðum sviðslistarinnar. Ef til vill var það vegna persónulegrar nálægðar höfunda og flytjenda við umfjöllunarefnið en þau lýstu því sjálf í umræðum eftir sýninguna að flutningurinn tæki alltaf ákveðinn líkamlegan toll á þau. Verkið er þó engu að síður mjög umhugsunarvert og skildi undirritaðan eftir með fjölmargar vangaveltur.

Seinna verkið var að mörgu leiti andstæðan við hið lágstemmda og pólitíska THIS BODY. Fatal Instrument er verk eftir samnefndan finnskan sirkúslistahóp sem sýnt var í Tjarnarbíói. Þrír ungir menn koma fram á sviðinu og sýna sirkús- og bardagalistir, á milli þess sem þeir spila þekkt rokklög og leika senur úr frægum bíómyndum. Þetta er galsafullt verk og það var augljóst að flytjendurnir skemmtu sér mikið við að sýna það. Ég skemmti mér þó ekki jafn mikið enda var lítið í verkinu sem heillaði mig fyrir utan nokkur tæknilega flott sirkúsbrögð. Verkið var einstaklega ungæðislegt og lét mér hálfpartinn líða eins og ég væri stiginn inn í einhvers konar fantasíu 14 ára unglings. Atriðin voru eins og tékklisti yfir hluti sem unglingsstrákum fannst kúl við upphaf 21. aldarinnar; Tekken, Star Wars, Rage Against the Machine og ninjur, það vantaði eiginlega bara nokkra kassa af Doritos og Mountain Dew til að fanga fullkomlega stemninguna á lankvöldi í félagsmiðstöð árið 2005. En áhorfendur virtust margir hverjir skemmta sér konunglega sem er eflaust það sem mestu máli skiptir.

Bára lokuð inni í kerfisfangelsi

Næsta verk sem ég sá var af allt öðrum toga en það var gjörningurinn INvalid eða ÖRyrki eftir Báru Halldórsdóttur. Bára varð eins og allir vita landsfræg á einni nóttu þegar hún steig fram sem uppljóstrarinn í Klaustursmálinu. Hún hefur síðan þá sætt miklum rógburði bæði af höndum þeirra stjórnmálamanna sem hún tók upp og almenningi á internetinu. Gjörningurinn er einskonar andsvar við þeim illmælum og gerður til þess að svipta hulunni af raunverulegu lífi öryrkja á Íslandi. Hann fór fram í Listastofunni, litlu galleríi á Hringbraut, þar sem Bára var búin að endurskapa herbergi sitt með rúmi og ýmsum persónulegum munum sem afgirt voru með hænsnaneti. Bára dvaldi í þessu herbergi tólf tíma á dag í þrjá daga og eyddi tímanum mestmegnis í rúminu og á samfélagsmiðlum.

Utan á hæsnanetinu og á veggjum gallerísins héngu ýmis persónuleg skjöl svo sem reikningar fyrir heilbrigðisþjónustu og upplýsingar um Behcet’s, sjúkdóminn sem Bára þjáist af. Á vegg í innra rými var svo varpað ýmsum ónafngreindum athugasemdum og skilaboðum sem Bára hefur fengið í gegnum samfélagsmiðla og voru þær vægast sagt ónærgætnar. Í gjörningnum nýtti Bára sér einfalt og sterkt myndmál til að sýna fram á þá ósanngjörnu og erfiðu stöðu sem öryrkjar á Íslandi þurfa að lifa við. Bára er bókstaflega lokuð inni í einskonar kerfisfangelsi hvar hún liggur aðgerðalaus fyrir allra augum. Þó kemur hún manni ekki fyrir sjónum sem fórnarlamb heldur sem sjálfstæður einstaklingur sem er að segja sína eigin sögu og taka sitt verðskuldaða pláss. Gjörningurinn er afhjúpandi og einlægt verk sem sýnir fram á daglegan raunveruleika eins stærsta jaðarsetta semfélagshóps hér á landi.

Úðaður með frussi

Sama kvöld fór ég svo á leikritið Repertory Theatre í Tjarnarbíói eftir ísraelska leikhópinn Elephant and Mouse Company sem var með tvö verk á hátíðinni. Repertory Theatre er gamanleikur með tveimur leikurum sem fjallar um leikskáld sem fer á fund leikhússtjóra til að bera undir hann nýtt verk sem hann hefur skrifað. Faðir leikskáldsins var eitt sinn stjarna leikhússins áður en hann dó á sviði í miðri sýningu og brátt kemur í ljós að lífið og listin eru samtengdari en skáldið gerði sér grein fyrir. Verkið er einstaklega vel leikið í trúðastíl sem er svo ýktur að hann ætti eiginlega ekki að ganga upp en gerir það á einhvern furðulega skemmtilegan máta. Um miðbik verksins á sér svo stað leikrænt krefjandi viðsnúningur þegar undanfarin atburðarrás verksins er endurtekin og annar leikarinn endurtekur sitt hlutverk nákvæmlega á meðan hinn leikur annað hlutverk sem setur allt verkið í nýtt samhengi. Leikararnir brjóta fjórða vegginn á mjög skemmtilegan máta og verða áhorfendur fyrir barðinu á því. Undirritaður lenti til dæmis í því að vera úðaður með frussi leikara fyrir það eitt að vera að punkta niður hjá sér á sýningunni.

Síðasta kvöldið mitt á Reykjavík Fringe sá ég svo þrjár sýningar. Sú fyrsta var leikritið MOJAVE eftir leikhópinn Citizens Band Radio í Þjóðleikhúskjallaranum. Verkið fjallar um símaklefa sem stóð einangraður í Mojave eyðimörk Kaliforníu í rúm 50 ár og varð frægur í árdaga internetsins í gegnum samfélag fólks sem stundaði það að hringja í símann. Skemmtilegt og vel unnið verk sem varpar ljósi á það hvernig ólíklegustu fyrirbæri geta tengt fólk saman víðsvegar að úr heiminum. Þá er jafnframt forvitnilegt að sjá hversu hratt hlutir eins og símaklefar, sem voru í almennri notkun fyrir minna er tveimur áratugum, verða framandi þeim kynslóðum fólks sem ólust ekki upp við að nota þá. Næsta sýning var einnig í Þjóðleikhúskjallaranum, einleikurinn Bleach eftir breska leikarann og leikskáldið Dan Ireland-Reeves. Bleach er ágengt og spennandi verk um ungan mann sem reynir að komast af í London með því að selja líkama sinn. Verkið er bæði frábærlega vel leikið og skrifað og hélt mér allan tímann en það var hálf leiðinlegt að sjá hversu fáir áhorfendur voru á þeirri sýningu sem ég sá.

Einblínt á grasrótina

Þriðja verk kvöldsins og síðasta verk hátíðarinnar hjá mér var svo samfélagsgjörningurinn American Single eftir bandarísku leikkonuna Oliviu Finnegan sem fór fram í kjallara Hard Rock. Í gjörningnum býður Olivia áhorfendum að fylgjast með og taka þátt í lifandi stefnumóti þar sem hún reynir ýmsar aðferðir til að koma sér á séns, bæði í gegnum Tinder og með því að biðla til manna í salnum. Sýningin var mjög vel útfærð þó að hugmyndin sé ekki ýkja frumleg enda hefur sambærilegt verk þegar verið sýnt hér á landi eftir sviðshöfundinn Rebeccu Lord. Sýningin vekur upp ýmsar spurningar um tilhugalíf á tímum samfélagsmiðla en einnig um friðhelgi einkalífsins. Þó ég hafi sjálfur gerst sekur um að hlæja að taktlausum Tinder skilaboðum ókunnugra manna gat ég ekki annað en velt því fyrir mér hvort það væri einhvers konar brot á persónuverndarlögum að birta þau fyrir fullum sal af fólki. Ég velti því einnig fyrir mér hvort að viðbrögðin við sýningunni hefðu verið þau sömu væri hlutverkunum snúið við og karlmaður myndi bjóða konum á stefnumót fyrir allra augum.

Þar með lauk Fringe vikunni hjá mér og verður að segjast að ég var mjög hrifinn af þessari fjölbreyttu hátíð. Það eru algjör forréttindi að fá tækifæri til að sjá svo ótalmargar ólíkar sýningar allstaðar að úr heiminum. Helsti gallinn við hátíðina var eiginlega hversu lítið fór fyrir henni en margir sem ég minntist á hátíðina við höfðu varla heyrt á hana minnst. Það tekur þó eflaust smá tíma fyrir glænýja hátíð að stimpla sig inn í menningarlífið hér á landi og sérstaklega þegar viðkomandi hátíð einblínir jafn mikið á grasrótina og raun ber vitni. Undirritaður hlakkar að minnsta kosti til að fara aftur á Reykavík Fringe að ári og vonar svo sannarlega að hátíðin sé komin til að vera.

Tengdar fréttir

Leiklist

Óskýr mörk milli leikhúss og tölvuleiks

Myndlist

Bára berar líf sitt

Stefnumót við heppinn áhorfanda

Menningarefni

Ari Eldjárn kominn á kortið í Bretlandi