Leikhúsið á að hjálpa til við uppeldi barna

Mynd: RÚV / RÚV

Leikhúsið á að hjálpa til við uppeldi barna

22.10.2019 - 12:41

Höfundar

„Ég var akkúrat svo fegin að upplifa strangheiðarlegt leikhús fyrir börn. Mér fannst við vera að fara aftur í kjarna leikhússins,“ segir Hildur Eir Bolladóttir um leiksýninguna Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist.

Hildur Eir Bolladóttir prestur segir Galdragáttina og þjóðsöguna sem gleymdist, nýja fjölskydusýningu sem sýnd er í samkomuhúsinu á Akureyri, hafa farið með sig aftur inn að kjarna leikhússins. Rætt var um sýninguna í Lestarklefanum. Í verkinu eru gamalkunnar þjóðsögur settar í nýjan búning og er það leikhópurinn Umskiptingar sem setur það upp. Tónlist er eftir Vandræðaskáld í útsetningu Kristjáns Edelstein.

„Ég var akkúrat svo fegin að upplifa strangheiðarlegt leikhús fyrir börn. Leikritið hefur allt það sem barnaleikrit þurfa að hafa. Það er fræðandi, án þess að vera íþyngjandi,“ segir Hildur og er ánægð með hvernig unnið er með þjóðsögur Jóns Árnasonar í sýningunni. „Þarna voru svo líka siðferðisstef. Það er talað um einelti og hættuna á sjálfsdýrkuninni. Sem er náttúrulega mjög aktúelt atriði í dag á tímum samfélagsmiðla. Þetta leikverk og þessi dagpartur sem ég eyddi þarna með syni mínum gerði það að verkum að við gátum til dæmis rætt einelti þegar við komum út í bíl. Þetta er það sem leikhús á að gera til dæmis. Auðvitað skemmta manni en það á líka að hjálpa okkur við að ala upp börnin okkar.“

„Mér fannst þetta ótrúlega skemmtilegt og virkilega flott sýning,“ segir Hrönn Björgvinsdóttir umsjónarmaður ungmennadeildar Amtsbókasafnsins á Akureyri. „Ég fór með fimm ára syni mínum og veit ekki hvort okkar skemmti sér betur.“ Vandræðaskáldin eru þekkt fyrir sérstæða kímnigáfu og hún skín vel í gegn að mati Hrannar. „Þetta er kannski barnasýning en það er alltaf þessi lagskipti húmor, brandarar sem krakkarnir skilja kannski ekki en fullorðnir fatta.“

Finnur Dúa grafískur hönnuður skemmti sér líka vel. „Það er mikið ævintýri í þessu, ekki bara hvað söguna snertir, heldur einnig í lýsingunni og sviðsmyndinni. Alls konar smáatriði sem skila öllu vel. Þetta verður svo hlýlegt og skemmtilegt.“ Auður Ösp Guðmundsdóttir er leikmynda- og búningahönnuður sýningarinnar. „Þetta eru mjög skemmtilegar lausnir sem Auður hefur framkvæmt,“ bætir Finnur við.

Í Lestarklefanum var einnig rætt um A-gjörningahátíð og kvikmyndina Goðheima. Sjá má þáttinn í heild hér.

Tengdar fréttir

Myndlist

Akureyrarútgáfa Lestarklefans

Menningarefni

Steingeldur gamall feðraveldisfarsi

Tónlist

Kýldur í magann með setningu

Kvikmyndir

„Ég hef séð, lesið og heyrt þessa sögu áður“