Leikhúsi og kvikmynd teflt saman í eina heild

Mynd: Borgleikhús / Borgleikhús

Leikhúsi og kvikmynd teflt saman í eina heild

25.10.2019 - 11:45

Höfundar

„Það er ansi valt að treysta nokkrum sköpuðum hlut í þessari sýningu eða festa í hólf,“ segir María Kristjánsdóttir gagnrýnandi um Stórskáldið, leiksýningu Björns Leós Brynjarssonar í Borgarleikhúsinu. „Hún virðist fyrst og fremst sköpuð til að koma áhorfanda á óvart, sköpuð til að skemmta.“

Ætli það hafi ekki verið Guðmundur Steinsson sem í Brúðarmyndinni lét fyrstur íslenskra leikskálda kvikmyndavél fá stórt hlutverk í leikverki. Þar var glímt við áhrif þessa auga á samskipti fólks sem verið var að gera heimildarmynd um og stöðu listamannsins bak við vélina. Það var fyrir þrjátíu og tveimur árum og frá þeim tíma hefur kvikmyndavélin orðið sjálfstæður hluti af tæknibúnaði leikhússins og er notaður mest sem slíkur í nýju verki Björns Leós Brynjarssonar Stórskáldinu sem frumsýnt var síðasta föstudag á nýja sviði Borgarleikhússins í leikstjórn Péturs Ármannssonar og í leikmynd Ilmar Stefánsdóttur.

Borgarleikhúsið hefur á undanförnum árum tekið yfir það sem ætti að vera hlutverk Þjóðleikhússins, að styðja við ung leikskáld, og Stórskáldið er afrakstur þess að Björn Leó var á árs höfundasamningi hjá Leikfélaginu. Í verkinu segir frá ungri kvikmyndagerðarkonu sem ferðast inn í yfirgefinn námubæ í einhvers konar Amazon-regnskógi ásamt elskhuganum, kvikmyndatökumanni, til að leggja lokahönd á heimildarmynd um dauðvona föður sinn, Nóbelsverðlaunaskáld sem þangað hefur flúið fyrir fjölmörgum árum og að manni helst skilst undan dómstóli götunnar. Framagjörn, eins og faðurinn, ætlar hún sér að nýta sér á metorðabrautinni banalegu hans sem einhvers konar hefnd fyrir það að faðirinn hafi yfirgefið hana og móðurina fyrir tuttugu og fjórum árum.

Leikhúsi og kvikmynd er teflt saman í eina heild í Stórskáldinu eða réttara satt veit áhorfandi stundum ekki alveg hvenær fólk er í upptöku eða leika fyrir okkur beint. Og stundum erum við bara í bíó. Það er erfitt að setja verkið í einhvern flokk, sé þess þörf, en fantasíugamanleik hallast ég að að kalla það. Því fantasía er frumskógarleikmynd Ilmar Stefánsdóttur með sínum skúmaskotum, gluggavegg , kvikmyndatjaldi og útbólgna gúmmípálma og gervi-pottaplöntum. Fyndin er myndin líka og þénanleg, þó leikstjórinn nýti hana ekki til fullnustu. Leikstjórn Péturs Ármannssonar er einnig rík af fantasíu og húmor í umgengni við leikverkið sem vissulega gefur fyrirmæli um að flakka milli kvikmyndamiðilsins og leikhússins, en Pétur bætir þar um betur einkum í flassbökkum þegar feðginin fara að rifja upp minningar sínar. Þau eru svo klisjukennd og grótesk með sínum sterku kómísku leikhljóðum, ævintýrabúningum Ilmar og gervum Margrétar Benediktsdóttur – að sögn þeirra verður einfaldlega sú að ansi valt sé að treysta þeim minningum.

Það er annars ansi valt að treysta nokkrum sköpuðum hlut í þessari sýningu eða festa í hólf. Hún virðist fyrst og fremst sköpuð til að koma áhorfanda á óvart, sköpuð til að skemmta. Mesta skemmtanin er að horfa og hlusta á Jóhann Sigurðarson í hlutverki skáldsins. Í allri sinni stærð og með sinni miklu, blæbrigðaríku rödd yfirtekur hann rýmið jafnvel þó Nóbelskarlinn sé ekki beinlínis orðhagur. Hann skilar þessari ímynd af síðasta geirfuglinum Benedikt, útbólgnum, útsmognum frekjukalli, listamanni með stórum staf sem sokkinn er í sjálfsvorkunn og eymd þannig að áhorfandi bæði hlær að honum og grætur með honum. Til viðbótar við þá stærð sem Jóhann hefur sem leikari þá er þáttur hans enn aukinn með stöðugum nærmyndum af honum á kvikmyndatjaldinu. Unnur Ösp Stefánsdóttir sem leikur Rakel dóttur hans og Hilmar Guðjónsson sem leikur Andra kvikmyndatökumanninn, kærasta hennar, eru því nánast að leika á móti ofurefli. Leikskáldið dregur upp ansi einfalda mynd af dótturinn í texta og leikstjórinn virðist ekki hafa haft áhuga á að skapa Unni Ösp tækifæri til að búa til nægilega sterkt mótvægi við kallinn. Er hún þó sú sem að lokum ræður framvindu. Einungis í minningarbrotunum fær hún að láta til sín taka og sýna hvað hún getur. Öðru máli gegnir með kærastann, Andra. Hilmar fær tíma í fyrra hluta verksins fyrir farsasóló sem sum eru fyndin önnur kunnugleg úr hans ranni en vel fer hann með hvörfin þegar meðvirknin með kærustunni rennur af honum.

Í heild er þetta þó glettin og fersk sýn á listamenn, fjölskyldutengsl og sjálft leikhúsið. Þeir áhorfendur sem ég rakst utan í á leið minni úr húsi voru flestir firnaglaðir.

 

Tengdar fréttir

Leiklist

Stórskáldið í frumskóginum

Leiklist

Afhjúpun Nóbelsskálds í plastfrumskógi