Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leikflétta AfD og upplausnin í þýskum stjórnmálum

15.02.2020 - 07:30
Mynd: EPA-EFE / EPA
Þýsk stjórnmál loga þessi dægrin eftir afsögn nýkjörins forsætisráðherra Thuringen-fylkis. Afsögnin kom ekki til af góðu, en flokkar frjálslyndra og kristilegra demókrata höfðu stutt þjóðernispopúlistaflokkinn AfD, eða réttara sagt þegið stuðning flokksins, eitthvað sem þeir máttu alls ekki gera. Í kjölfarið sagði formaður Kristilegra demókrata sig frá embætti. En hvers vegna er þetta svona mikið mál?

Naumur sigur Kemmerich

Það dró til tíðinda í sambandsríkinu Thuringen í suðvesturhluta gamla Austur-Þýskalands, skammt norðan Bæjaralands - í síðustu viku. Thomas nokkur Kemmerich úr flokki Frjálslyndra demókrata, varð þá hlutskarpastur í kosningu þingmanna um nýjan forsætisráðherra ríkisins. Hann hafði betur í baráttunni við Bode Ramelow, frambjóðanda vinstriflokksins Die Linke og forsætisráðherra Thuringen til síðustu sex ára. Sigurinn var tæpur, en Kemmerich fékk 45 atkvæði þingmanna, einu meira en Ramelow. „Með naumum meirihluta hefur þingið í Thuringen falið mér þá ábyrgð að gegna embætti forsætisráðherra, og mynda hér ríkisstjórn. Vinnan hefst núna,“ sagði Kemmerich þegar úrslitin voru ljós.

En hún hófst hreint ekki neitt. Einungis sólarhring eftir að Kemmerich var kosinn, tilkynnti Kemmerich að hann myndi ekki taka við embættinu.

„Í samráði við félaga mína í Frjálsyndum demókrötum, höfum við ákveðið þingið að í Thuringen verði leyst upp, og boðað verði til nýrra kosninga“

sagði Kemmerich. Ástæðan er sú að það var fyrir tilstuðlan stuðnings þingmanna þjóðernissinaða popúlistaflokksins AfD, Alternatif fur Deutschland, eða Valkostur fyrir Þýskaland, sem Kemmerich hlaut brautargegni. Sú staðreynd að frjálslyndir Demókratar hafi þegið stuðning AfD, og Kristilegir demókratar hafi ekki lagst gegn því - hefur lagt Þýskaland á hliðina. Bókstaflega. Því þetta er í fyrsta sinn sem flokkur með þá hugmyndafræði sem AfD aðhyllist, nær að hafa bein áhrif á hverjir eru við stjórn í þýsku sambandsríki - síðan í síðari heimsstyrjöld. Alla tíð frá falli þriðja ríkisins hafa þýskir stjórnmálamenn kappkostað að koma í veg fyrir að sagan endurteki sig. Og nú, óttast Þjóðverjar hið versta - og atburðir síðustu viku í Thuringen þykja gefa slæm fyrirheit.

epa08195496 Hundreds of demonstrators protest outside the Free Democratic Party (FDP) headquarters in Berlin, Germany, 05 February 2020. FDP politician Thomas Kemmerich was surprisingly elected Prime Minister of German state Thuringia on 05 February 2020. He won the decisive third ballot in the state parliament against the former incumbent Bodo Ramelow.  EPA-EFE/FELIPE TRUEBA
Fjöldi fólks safnaðist saman við höfuðstöðvar Frjálslyndra demókrata í Berlín og mótmælti pólitískum tíðindum frá Thüringen. Mynd: EPA-EFE - EPA
Mótmæli fyrir utan höfðustöðvar Frjálslyndra demókrata í Berlín, þann 5. febrúar síðastliðinn, sama dag og Kemmerich var valinn til embættis forsætisráðherra.

Af hverju vill enginn leika við AfD?

Til að skilja hversu þýðingamikill atburður rétt tæplega sólarhringsseta Thomasar Kemmerich á forsætisráðherrastóli í Thuringen hefur haft á þýsk stjórnmál, sem og þýskt samfélag, þarf að skilja úr hvaða farvegi AfD- flokkurinn sem hefur nú hleypt öllu í bál og brand, kemur. Flokkurinn er ekki gamall, hann var stofnaður árið 2013 sem viðbrögð við efnahagsvanda evrusvæðisins í kjölfar efnahagshrunsins. Fljótlega fóru forvígismenn flokksins að horfa í aðra átt - mögulega í leit að atkvæðum - og þegar Angela Merkel kanslari bauð um eina milljón sýrlenskra flóttamanna velkomna til Þýskralands árið 2015, stökk AfD á annan vagn og varð róttækari í andstöðu sinni við innflytjendur, þá sér í lagi múslima.

Hægt er að flokka flokksmenn sem hægri-popúlíska efsasemdamenn um Evrópusambandið, og síðast en ekki síst þjóðernissinnaða mjög. Það má þó ekki ganga svo langt að kalla þá nýnasista, eins og gjarnarn er gert. Vissulega, eins og áður er hefur verið fjallað um í Heimskviðum, sækir flokkurinn fylgi sitt meðal annars til þeirra sem aðhyllast hugmyndafræði þriðja ríkisins, en ekki einvörðungu.

En sökum andstöðu sinnar gagnvart útlendingum og samvinnu flokksins með öfgahópum á borð við Pegida-samtökin, er flokkurinn vægast sagt umdeildur í Þýskalandi. Hann þykir með öðrum orðum boða stefnu ekki ólíka þeirri sem varð valdur einhverju mesta hörmungartímabili mannkynssögunar, þegar nasistar réðu ríkjum í Þýskalandi.

epa08217944 Protesters stand with their banners during a election campaign of Alternative for Germany party (AfD) in Kulmbach, Germany, 14 February 2020. The AfD-District Association Kulmbach has invited AfD faction chairman in the regional parliament of Thuringia Bjoern Hoecke for its local election campaign.  EPA-EFE/RONALD WITTEK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
„Fari AfD norður á niður,“ stendur á þessum fána mótmælenda í bænum Kulmbach á sjálfan Valentínusardaginn.

„Kvíðvænleg þróun“

Hin þýska Vanessa Monika Isenmann er doktorsnemi við Háskóla Íslands en hefur búið hér á landi síðustu sjö ár. Hún segist hallast til vinstri í pólitík, svo það sé áréttað, og fylgist vel með stjórnmálum í heimalandinu. Hún segir ofsafengin viðbrögð Þjóðverja við tíðindum síðustu viku tengjast því fyrst og fremst að AfD sé nú kominn með fótinn inn fyrir dyrnar, svo að segja. Flokkurinn sé nú farinn að hafa bein afskipti af því hverjir ráða.

„Já, þetta er í fyrsta sinn sem við sjáum að AfD getur stjórnað einhversstaðar og það er soldíð kvíðvænleg þróun,“ segir Vanessa. Við ræðum betur við Vanessu síðar í þessum pistli, en þessi þróun sem hún talar um er einmitt mörgum Þjóðverjum kvíðavaldur. Þýskir stjórnmálaflokkar hafa nefnilega gefið það út að þeir ætli ekki að vinna með AfD, undir neinum kringumstæðum. Flokki sem er engu að síður orðinn stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn í þýska þinginu, en hefur nú 89 þingmenn af 709.

Eldmúrinn er fallinn

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir, fréttamaður, hefur áratugum saman fylgst grannt með þýskum stjórnmálum.

„Allir flokkar í Þýskalandi hafa líst yfir andstöðu við AfD og hafa sagt að samstarf við AfD sé ekki inni í myndinni. Og Angela Merkel Þýskalandskanslari hefur talað með mjög skýrum hætti um það, um að það samstarfs komi ekki til greina. Þess vegna er þetta svo mikið áfall að þessi Kemmerich verður kosinn forsetisráðherra með stuðningi AfD,“ segir Jóhanna. 

Stundum er talað um eldmúrinn svokallaða í þessu samhengi, Branmauer, múrinn milli þjóðernissinnaðra öfgahreyfinga og annarra stjórnmálaafla, sem hafa tekið sig saman um að koma í veg fyrir að slíkir flokkar, eins og AfD, nái nokkrum einustu áhrifum í þýskum stjórnmálum. En í síðustu viku, virðist sem múrinn hafi fallið. Jóhanna tekur undir það.

„Já, en svo má heldur ekki gleyma öðru, að Kemmerich segir auðvitað af sér 24 klukkustundum síðar. Hann flutti ræðu eftir að hann var kosinn of hann fékk ekki hljóð, gripið var frammí fyrir honum og hann kallaður bæði svikari og hræsnari. Þá var blómum hent að fótum hans,“ segir Jóhanna.

„Hann komst ekki upp með þetta. Samflokksmenn hans og andstæðingar fyrirlitu hann fyrir að hafa tekið við stuðningi AfD með þessum hætti og náð þessari kosningu. Þannig að viðbrögðin voru vissulega mjög harkaleg, og það endurspeglar það að það er mjög sterk andstaða annarra flokka við AfD,“ segir Jóhanna Vigdís, og bætir því við að nú hafi ísinn hinsvegar verið brotinn, eða eldmúrinn fallið. „Það sér enginn fyrri afleiðingarnar. Þess vegna er talað um upplausnarástand í þýskum stjórnmálum í dag.“

Leikflétta Björns Höcke

Víkjum þá sögunni að því sem gerðist nákvæmlega á sambandsþinginu í Thuringen í síðustu viku. Sem fyrr segir hlaut frambjóðandi Frjálslyndra, Kemmerich, flest atkvæði þingmanna og hafði nauman sigur, þökk sé þingmönnum AfD sem studdu hann. Þetta er í fyrsta sinn sem AfD er beinn þátttakandi í því að einhver komist til valda, þótt það hafi ekki verið þingmaður þeirra. Talið er að þessi atburðarás sé runnin undan rifjum Björns Höcke, leiðtoga AfD í Thuringen, sem hafi með þessu einfaldlega viljað valda glundroða. Vilja gera það að verkum að stóru flokkarnir færu á bak orða sinna. Að þeir brytu niður eldmúrinn svokallaða.

Fréttaskýring Der Spiegel um persónufylgi Björns Höcke:

„Ég held að það gefi augaleið, og ef þetta er leikflétta að hálfu Björns Höcke, formanns AfD í Thuringen, þá er þetta mjög vel úthugsuð leikflétta og hann hefur svo sannarlega haft erindi sem erfiði,“ segir Jóhanna Vigdís. Gott fylgi AfD í Thuringen er ekki síst rakið til Höckes, sem mörgum Þjóðverjum þykir hallur undir hugmyndafræði nasista. Höcke sagði til að mynda einu sinni að minnismerkið um helförina í hjarta Berlínar, væri skammarlegt.

„AfD er umdeildur stjórnnmálaflokkur, en Björn Höcke er ekki síður umdeildur stjórnmálamaður. Hann er mjög umdeildur allstaðar í Þýskalandi í raun og veru,“ segir Jóhanna, og undir það tekur Vanessa Isenmann.  „Ég myndi kalla hann nasista, já. Hann hefur til dæmis verið kennari í sagnfræði í menntaskóla. Þess vegna er þetta enn verra, að maður með svona hugmyndafræði hafi svona áhrif,“ segir hún. 

En hvað sem póltískri hugmyndafræði Björns Höcke líður, er ljóst að honum tókst ætlunarverk sitt. Þýsk stjórnmál eru í upplausn, og hvergi gætir þeirrar upplausnar meir en einmitt hjá flokki Kristilegra demókrata (CDU), en sjö af sextán ráðherrum þýsku ríkisstjórnar koma úr röðum CDU, þar á meðal Angela Merkel kanslari.

epaselect epa08212575 German Minister of Defence Annegret Kramp-Karrenbauer at the beginning of a cabinet meeting in the German chancellery in Berlin, Germany, 12 February 2020. The cabinet of the German government will deal with the draft law implementing the EU directives on the posting of workers as part of the provision of services, among others.  EPA-EFE/HAYOUNG JEON
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Annegret Kramp-Karrenbauer hefur sagt sig frá formennsku í CDU eftir atburðina í Thuringen.

AKK segir af sér

Annegret Kramp-Karrenbauer, eða AKK eins og hún er kölluð í heimalandinu, tók við embætti formanns CDU í lok árs 2018 af sjálfri Angelu Merkel, og búist var við því að hún yrði næsti kanslari Þýskalands, að minnsta kosti kanslara efni kristilegra demókrata, færi svo að kristilegri demókratar unnu kosningarnar á næsta ári. En á mánudag, sá Kramp-Karrenbaur sér ekki fært annað en að segja af sér sem formaður flokksins í kjölfar tíðindanna frá Thuringen, þótt hún komi áfram til með að gegna stöðu varnarmálaráðherra. 

Kjörtímabilið hefur nefnilega ekki farið mjúkum höndum um Kramp-Karrenbauer. CDU hefur gengið illa í sveitarstjórnarkosningum og tapað fylgi til annarra flokka, meðal annars til AfD.  Hún hafði sjálf líst yfir andstöðu á öllu samstarfi við AfD. Hennar eigin flokksmenn, höfðu nú óhlýðnast henni og farið gegn stefnu flokksins. Jóhanna Vigdís segir uppákomuna í Thuringen undirstrika hversu veikur leiðtogi hún var í raun og veru.

„Það virðist hafa verið mjög gott á milli þeirra Merkel og Kramp-Karrenbauer og Merkel vildi fá hana sem arftaka sinn. Hún vann formannskosninguna með naumindum og hefur í síðan hún tók við formennsku af Merkel ekki sýnt þá forystuhæfileika, eða forystueiginleika, sem hún verður að hafa til þess að vera formaður í þessum stóra flokki. Svo ég tali nú ekki um að vera kanslaraefni flokksins.“

Í þessu kristallast vandi Kristilegra demókrata í dag. Undir stjórn Kramp-Karrenbauer virðist flokknum hafa mistekist að halda fylgi sínu, og það sem alvarlegra verra er - mistekist að halda sig eins langt frá AfD og mögulegt er - líkt flokkslínurnar segja til um. Undir það tekur Vanessa.

„Já auðvitað. CDU hefur ekki sagt nógu skýrt hvar þau standa, og ekki tekist að marka sig frá AfD. SPD, CDU og Græningjar hafa ekki komið með nægilega góð svör,“ segir Vanessa.

epa08217955 Protesters stand with their banners during a election campaign of Alternative for Germany party (AfD) in Kulmbach, Germany, 14 February 2020. The AfD-Kreisverband (District Association) Kulmbach has invited AfD faction chairman in the regional parliament of Thuringia Bjoern Hoecke for its local election campaign.  EPA-EFE/RONALD WITTEK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þjóðernispopúlistum mótmælt í Þýskalandi í vikunni.

„Við ættum að vita betur“

En hvers vegna er Þjóðverjum jafn brugðið og raun ber vitni? Það er ekki eins og þingmaður AfD hafi sjálfur tekið við stjórnartaumunum í Thuringen. AfD spilaði vissulega hlutverk, en fyrr má nú vera. Eða hvað?

„Stærsta vandamálið er sagan okkar í Þýskalandi,“ segir Vanessa. „Þetta er í fyrsta skipti sem AfD, en flokkur eins og AfD, styður forsætisráðherra með þessum hætti - nú í Thuringen. Þetta er ansi stórt mál í Þýskalandi, því þetta þýðir AfD gæti kannski stjórnað í Thuringen.“

Það er einmitt þetta með söguna, sem Vanessa nefnir, sem kemur illa við Þjóðverja. Stutt er síðan Þýskaland var undirlagt af minningarathöfnum vegna þess að 75 ár eru frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Vanessa segir að þrátt fyrir að Þjóðverjar séu meðvitaðir um illskuverk þriðja ríkisins, séu þeir fljótir að gleyma. Hennar kynslóð og foreldra hennar var ekki uppi á stríðsárunum og með tímanum sé hætta á því að fólk einfaldlega gleymi því, hvernig nasistar komust til valda á sínum tíma. Uppgangur AfD í Þýskalandi, og það fordæmi sem þingmennirnir í Thuringen gáfu í síðustu viku, hringir því óneitanlega viðvörunarbjöllum. Það að þjóðernishreyfingar sem séu andsnúnar útlendingum og fjölmenningu séu að njóta vaxandi fylgis í landi, er uggvænlegt, að mati Vanessu. „Mér finnst það alveg skelfilegt, alveg skelfileg þróun í Þýskalandi. Sérstaklega með tilliti til sögu okkar. Við ættum að vita betur.“

Og AfD er síður en svo að draga saman seglin. Allt bendir til þess að flokkurinn haldi áfram að bæta við sig fylgi, á meðan ríkisstjórnarflokkarnir, þá sér í lagi þeir sem eru rétt við miðjuásinn, missa fylgi. 

epa08214882 A man stands in front of the memorial to commemorate the 75th anniversary of the destruction of the city during World War II at the Heidefriedhof cemetery, in Dresden, Germany, 13 February 2020. An estimate 25,000 people were killed when Allied Forces bombed the centre of Dresden at the end of WWII on 13 and 14 February 1945. The thousands of victims of the allied bomb raids are commemorated annually on 13 February.  EPA-EFE/MARTIN DIVISEK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Frá kirkjugarðinum í Dresden. Maður leggur blómsveig á minnisvarða um fórnarlömb síðari heimsstyrjaldarinnar.

Umbrotatímar framundan í Þýskalandi

Það er erfitt að segja til um hvað gerist næst. Þrátt fyrir að Kemmerich hafi ákveðið að taka ekki við forsætisráðherraembættinu að endingu, er engu að síður ljóst að niðurstöður kosninganna voru lýðræðislegar. Kramp-Karrenbauer og Angela Merkel hafa óskað eftir því að kosið verði aftur, en erfitt er að spá í spilin um hvað gerist.

„.Það er óljóst í augnablikinu,“ segir Jóhanna Vigdís. „Það er annað sem veldur þessari stjórnarkreppu í Þýskalandi, það er nefnilega óljóst hvaða áhrif þetta mun hafa á samstarf sósíaldemókrata og CDU í ríkisstjórn. Það samstarf gengur ekki nægilega vel. Flokkur Merkel hefur jafnt og þétt verið að tapa fylgi, og það hefur gerst í þó nokkrum samsbandsríkju. Á sama tíma er AfD að ganga betur og bæta við sig fylgi.“

„Þegar inn kemur hægri öfgaflokkur, sem býður að mörgu leiti upp á skyndilausnir, þá hoppa margir á vagninn. Þrátt fyrir það að allir aðrir flokkar hafi lýst því yfir að samstarf við þennan flokk komi ekki til greina. Þess vegna er áfallið svo gríðarlega stórt þegar Kemmerich er kosinn í síðustu viku. Þú þarft ekki annað en að skoða hljóðlausa mynd af Angelu Merkel þegar hún fær þessi tíðindi. Þú lest þetta áfall úr augum hennar,“ segir Jóhanna, og bætir því við að það ætti ekki að koma neinum á óvart að það væru miklir umbrotatímar framundan í þýskum stjórnmálum. Undir það tekur Vanessa, sem hefur miklar áhyggjur af þróun stjórnmála í heimalandi sínu, Þýskalandi.

„Ég held að við vitum bara ekki hvað gerist næst í Þýskalandi.“