Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Leik mér ekki að því að vera opinn fyrir vírusnum“

Mynd: RÚV / RÚV
Margir óttast COVID-19 veiruna sem nú er komin til landsins en sumir hafa meiri ástæðu til að óttast en aðrir. Eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma á að sögn Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frekar á hættu að veikjast alvarlega. Dánartíðni þessara hópa virðist margföld á við aðra. Dæmi eru um að sjúklingar hafi læst útidyrahurðinni og hyggist halda sig heima næstu vikur. Yfirlæknir á smitsjúkdómalækningadeild Landspítalans, segir fólk í áhættuhópum ekki þurfa að loka sig af.

Viðkvæmir hópar sem allir þurfi að vernda

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, nefndi viðkvæmu hópana sérstaklega á upplýsingafundi Landlæknisembættisins og Almannavarna í gær. „Flestir sem fá þessa sýkingu fá hana vægt, 80% en það eru hópar sem geta fengið þessa sýkingu alvarlega, einkum eldri einstaklingar og fólk með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma. Það eru þessir hópar sem við þurfum að vernda og þess vegna þurfum við að beita þessum aðgerðum til að hægja á og stoppa útbreiðsluna sem mest í samfélaginu,“ sagði Þórólfur.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Alma Möller, landlæknir og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.

Reykingafólk í meiri hættu

 Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin beinir sérstökum tilmælum til fólks sem er komið yfir sextugt eða er með sykursýki, hjarta- og æðasjúkdóma eða öndunarfærasjúkdóma. Þessu fólki er hættara við því að veikjast alvarlega, fái það COVID-19 veiruna. Í ljósi þess er það hvatt til að halda sig frá svæðum þar sem margt fólk kemur saman og svæðum þar sem það kann að komast í návígi við veikt fólk. „Hæstu dánartíðnistölurnar eru meðal þeirra sem eru aldraðir, með fjölþætta sjúkdóma og þeirra sem reykja mikið,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans.

epa00837221 A man enjoys a cigarette while drinking a coffee in a street cafe, in this typical Parisian scene in Paris on Monday, 09 October 2006. France will ban smoking in most public places from 01 January 2007 and in bars, restaurants and hotels a
 Mynd: EPA
Reykingar eru áhættuþáttur að sögn Más.

Allir jafnlíklegir til að smitast

Már segir að heilsufar ráði því ekki hversu líklegt fólk sé til þess að smitast af sjúkdómnum, allir sem séu útsettir fyrir veirunni geti smitast, óháð heilsufari. Það geti svo farið eftir aldri og heilsu hversu veikt fólk verður ef það smitast og hversu lengi það sé að losa sig við veiruna. Aldraðir séu í meiri hættu en þeir yngri á að veikjast illa. Það sama gildi um fjölveika, krabbameinssjúklinga, hjarta- og lungnaveika, fólk með nýrnabilun og fólk sem er með ónæmisbrest. „Þetta er mjög stór hópur fólks sem gæti farið illa út úr veikindum ef það kemst í tæri við þau,“ segir Már. 

Mynd með færslu
 Mynd: pixabay
Fólk á fjöldasamkomu.

Fólk af asískum uppruna hugsanlega í meiri hættu

Fólk með sykursýki er að hans sögn í minni hættu þar sem flestir hér á landi séu undir góðu eftirliti og með góða stjórn á blóðsykrinum. Þessu til viðbótar segir Már ýmislegt benda til þess að fólk af asískum uppruna sé með fleiri viðtaka fyrir veiruna í öndunarfærunum, svokallaða ACE-2 viðtaka, og því í meiri hættu. Þetta séu þó enn óstaðfestar vangaveltur. 

Dánartíðnin óþekkt en mikill munur virðist vera milli hópa

Dánartíðni COVID-19 veirunnar er enn óþekkt. Áætlað er að veiran dragi um 2% þeirra sem smitast til dauða en meðal aldraðra og fólks með undirliggjandi sjúkdóma virðist dánartíðnin töluvert hærri. Hafi fjöldi verið vanmetinn kann dánartíðnin að vera töluvert lægri en nú er talið. Þó má líka benda á að fleiri af þeim sem nú eru veikir gætu átt eftir að deyja úr sjúkdómnum. Nú hefur rúmlega helmingur náð sér. Þetta er ekki einfalt reikningsdæmi.

epa08223650 A man wearing a protective mask rides a bicycle with his children in Guangzhou, China, 17 February 2020. The disease caused by the novel coronavirus (SARS-CoV-2) has been officially named Covid-19 by the World Health Organization (WHO). The outbreak, which originated in the Chinese city of Wuhan, has so far killed at least 1,776 people and infected over 71,000 others worldwide, mostly in China.  EPA-EFE/ALEX PLAVEVSKI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Faðir hjólar með börn sín í Guangzhou, Kína þann 17. febrúar.

Breska ríkisútvarpið BBC, vísar í rannsókn sóttvarnayfirvalda í Kína sem tók til fyrstu vikna faraldursins. Hún leiddi í ljós að á meðal þeirra sem eru komnir yfir áttrætt var dánartíðnin hátt í 15%, 8% meðal fólks á aldrinum 70-79 ára og 3,6% á meðal fólks á sjötugsaldri. Dánartíðni meðal yngri hópa var vel undir tveimur prósentum og dauðsföll fátíð hjá fólki undir fertugu. Þegar horft er til undirliggjandi sjúkdóma, þá virðist fólk með hjarta- og æðasjúkdóma í mestri hættu, dánartíðni í þeim hópi er rúmlega tíu prósent, samkvæmt rannsókninni. Meðal fólks með sykursýki, öndunarfærasjúkdóma og of háan blóðþrýsting var dánartíðnin á bilinu sex til átta prósent. 

Már segir nóg að vita að dánartíðnin sé hærri hjá ákveðnum hópum. Á vef Landlæknis segir að ekki sé búið að skilgreina nákvæmlega áhættuhópa með tilliti til alvarlegra sýkinga en að flestir sem létust á fyrstu vikum faraldursins hafi verið aldraðir eða með undirliggjandi sjúkdóma, hjarta- og lungnasjúkdóma, sykursýki eða lifrarsjúkdóma. Á vefnum segir að á þessari stundu liggi ekki fyrir hvort ónæmisbælandi meðferð auki líkur á því að fólk veikist alvarlega. Þá kemur fram að lítið virðist vera um alvarleg veikindi meðal barna. 

Fundur LEB um einmanaleika „í gjörgæslu“

Spegillinn heyrði í nokkrum samtökum fólks sem er hættara við því að veikjast alvarlega en öðrum. Forsvarsmenn þeirra segjast fara varlega og fylgja ráðleggingum Landlæknisembættisins. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, segir fólk sem hún hefur rætt við mjög æðrulaust. Félagið hefur sett leiðbeiningar á heimasíðu sína og hvatt félagsmenn til að fylgjast vel með fréttum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður LEB.

Stór fundur um einmanaleika sem fara á fram í lok mánaðarins er að hennar sögn í gjörgæslu, óvíst hvort hann verður haldinn. Þórunn hefur svolitlar áhyggjur af þeim hluta aldraðra sem á erfitt með að fara á netið, því sífellt sé verið að hvetja fólk til þess að fylgjast með uppfærslum á vef Landlæknis, sá hópur hlusti þó mikið á útvarp. Þórunn segir mikilvægt, nú þegar fólk sé orðið meðvitaðra um smitleiðir, að vera kurteis, reyna ekki að heilsa með handabandi og hósta ekki eða hnerra framan í aðra. 

Heilsufarsmælingum frestað

Ásgeir Þór Arnason, framkvæmdastjóri Hjartaheilla, segir samtökin taka veiruna alvarlega, öllum opinberum samkomum á vegum félagsins hafi verið aflýst og ókeypis heilsufarsmælingum sem áttu að fara fram í Hafnarfirði hafi verið frestað. Ásgeir segir félagsmenn suma hafa hringt og beðið um ráðleggingar, svo sem um hvort rétt sé að hætta við utanlandsferðir eða slaufa tónleikum. Sumir hafi valið að fara, aðrir valið að sitja heima. Margir séu áhyggjufullir og tregir til að sækja stórar samkomur.

Kjartan Birgisson starfar fyrir Hjartaheill. Hann segir að fólk hafi varann á og fylgi leiðbeiningum Landlæknis, fólk reyni að takmarka samskipti við fólk sem er nýkomið frá hættusvæðum, og jafnvel við fólk sem hefur átt í samskiptum við það. Hann segir fólk hringja og spyrja spurninga. „Það er alltaf eitthvað um það og er bara að aukast. Við reynum náttúrulega bara að svara því með upplýsingum sem við höfum úr fjölmiðlum. Við erum ekki með neinar beinar upplýsingar frá sóttvarnalækni aðrar en þær sem hafa birst í fjölmiðlum.“

Enn á ferðinni en hefur hugsað út í sóttkví

Mynd með færslu
 Mynd: Kjartan Birgisson
Kjartan Birgisson.

Kjartan hefur sjálfur gengist undir hjartaígræðslu. Hann leggur mikið upp úr smitvörnum. „Ég er nú einn af þeim sem er með ígrætt líffæri og á ónæmisbælandi lyfjum. Ennþá er ég nú á ferðinni þó ég sé vissulega farinn að hugsa til þess hvort ég fari sjálfur í sóttkví. Ennþá geng ég eins og aðra daga um með meðvitund um það að ég er í meiri áhættu en aðrir og þarf að fara varlega. Ég spritta mig og þríf mig vel og hugsa um hvað ég snerti þegar ég er á víðavangi.“

Hann segist munu endurskoða afstöðu sína ef tilfellum fjölgar mikið hér.„Að sjálfsögðu, maður leikur sér ekki að því að vera opinn fyrir vírusnum.“ 

Kjartani finnst embætti sóttvarnalæknis standa sig vel, það sé mikils virði að þau sem standa í fremstu víglínu séu róleg og greini satt og rétt frá framvindunni. „Nú eru nánast daglegir fundir um stöðuna, ég veit ekki hvað er hægt að gera betur,“ segir hann. 

„Ekkert grín fyrir þennan hóp“

Nýrnafélagið íhugar að slá fundum á frest. Það átti að vera skemmtifundur 15. mars og ekki ljóst hvort af honum verður. Guðrún Barbara Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri félagsins, segir að áhættan sé mikil, þetta sé ekkert grín fyrir þennan hóp. Guðrún segir að á göngudeild Landspítala fyrir fólk með nýrnasjúkdóma séu tvær einangrunarstofur, og þangað geti nýrnaveikir sem kunna að smitast farið í skilun þrátt fyrir smit. Guðrún segir að fólk með nýrnasjúkdóma fari mikið til Kanaríeyja því þar séu góðar skilunarvélar og fólki finnist gott að fara í hitann, hún voni bara að enginn greinist úr þessum hópi.

Finnst hópurinn skiptast í tvennt 

Mynd með færslu
 Mynd: Félag Lungnasjúklinga/Facebook
Félagsmenn í félagi lungnasjúklinga. Mynd: Félag lungnasjúklinga/Facebook.

Ólöf Sigurjónsdóttir hjá Samtökum lungnasjúkra segist ekki alveg í rónni og segir fólk í samtökunum margt áhyggjufullt. Hennar tilfinning er að hópurinn skiptist í tvennt, sumir láti þetta lítið á sig fá, aðrir vilji helst draga sig í hlé til að forðast smit. Ólöf segir mikilvægt að fólk sýni þeim sem eru hræddir skilning. Í gær fór mánaðarlegur fundur samtakanna fram og Ólöf segir færri hafa mætt en vanalega, fólk fari varlega og sjálf hugsi hún sig um, til dæmis hvort það sé ráðlegt að fara út í fiskbúð eða í líkamsrækt. Hún huggar sig við að ekkert bendi til þess að veiran sé farin að smitast milli manna hér, slík þróun myndi setja hlutina í annað samhengi fyrir lungnaveika. 

Ekki þörf á viðbótarráðstöfunum hjá sykursjúkum

Fríða Bragadóttir, framkvæmdastjóri samtaka sykursjúkra, segir samtökin hafa fengið þau svör frá yfirlækni göngudeildar sykursjúkra að ekki sé þörf á sérstökum ráðleggingum umfram þær almennu sem finna má á vef Landlæknis. Sykursjúkir á Íslandi séu flestir með góða blóðsykursstjórn og í góðu eftirliti. Fríða telur að tilmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eigi kannski frekar við á svæðum þar sem sykursjúkir fá ekki jafngóða heilbrigðisþjónustu og hér. Hún segist ánægð með störf stjórnvalda en nefnir þó að það hefði verið gott ef heilbrigðisyfirvöld hefðu átt frumkvæði að því að miðla upplýsingum um stöðu sykursjúkra, að félagið hefði ekki þurft að leita eftir þeim sjálft. Sigrún Lille Magnúsdóttir, forstöðumaður ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins, segir að félagsmenn hafi vissar áhyggjur og fari varlega, félaginu hafi þó ekki borist margar fyrirspurnir vegna COVID-19 veirunnar.

Fylgdi sinni tilfinningu og læsti útidyrahurðinni

Dæmi eru um að fólk sem er með marga undirliggjandi sjúkdóma hafi ákveðið að loka sig af til að forðast smit. Spegillinn ræddi við konu um sjötugt, hún er með lungnateppu og sykursýki og hefur farið í opna hjartaaðgerð.

Old key in door lock
 Mynd: Wikimedia commons
Konan ætlar að halda sig heima,

Konan segist ekki viss um að hún myndi lifa það af að fá veiruna, hún hafi gaman af lífinu og sé ekki nógu gömul til að deyja úr sýkingu sem hún geti komist hjá. Hún segir að fyrst um sinn hafi vinir og ættingjar talið hana vera að grínast, en að þeir hafi nú áttað sig á því að henni sé fúlasta alvara. Konan hefur gert ráðstafanir, hún fær mat og lyf send heim og hefur sömuleiðis birgt sig upp af spritti og hönskum - til að geta tekið á móti sendingum. Spurð hvað hún hyggist gera, geisi faraldur lengi á Íslandi, segist hún munu fara í sólbað úti á svölum. Hún segir að þetta geti eldra fólk sem eru hætt að vinna gert án þess að skaða nokkurn. Hún fylgi sinni tilfinningu. 

Segir fólk í áhættuhópum ekki þurfa að loka sig af

Már Kristjánsson, smitsjúkdómalæknir, telur ekki þörf á því að fólk í áhættuhópum loki sig af. Það nægi að fylgja leiðbeiningum Landlæknis, þvo og spritta hendur, snerta ekki andlitið með óhreinum höndum, halda fjarlægð frá fólki, forðast kossa, knús og handabönd og hósta eða hnerra í bréfþurrku eða olnbogabót.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Már svaraði spurningum á blaðamannafundi Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra í dag.

Már minnir á að til að teljast útsett fyrir veirunni þurfi fólk að vera í innan við tveggja metra fjarlægð frá sýktum einstaklingi í fimmtán mínútur. „Ef maður gætir að þessu, handhreinsun, hóstaetíkettu og þessari nánd við aðra þá er fólki, hvort sem það er aldrað eða með fjölmarga sjúkdóma, ekki sérstaklega mikil hætta búin.“

Hann segir að fjölveikt fólk ætti þó að hugsa sig tvisvar um áður en það ferðast til landa þar sem veiran grasserar. 

Öll eggin í fáum körfum

Á meðan sumir loka útidyrunum er Má umhugað um dyr Landspítalans sem eins og er standa opnar. Hann segir að fyrir nokkrum vikum hafi ferðamaður frá útsettu svæði komið á spítalann með háan hita. Maðurinn taldi sig geta verið með COVID-19 veiruna. Már segir að hann hafi gengið inn um rangar dyr og farið nokkuð víða um spítalann áður en hann hitti starfsmann og greindi frá erindi sínu. Maðurinn reyndist sem betur fer ekki smitaður. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Starfsmaður Landspítala í hlífðarklæðum frá toppi til táar.

Már bendir á að hér séu fáir spítalar, við séum með öll eggin í fáum körfum. Það sé bara Landspítalinn, og sjúkrahúsið á Akureyri. „Þetta er verulegt áhyggjuefni fyrir okkur, rekstraröryggi Landspítala það er að segja.“

Það sé heppilegt að Landspítalinn sé starfræktur í tveimur byggingum. 

Kerfið hér megi ekki við norsku atviki

Már segir að heilbrigðiskerfið hér megi ekki við atviki sambærilegu því sem varð á Ullevål spítala í Ósló í Noregi þar sem augnlæknir, sem var nýkominn frá Ítalíu, smitaði bæði samstarfsfólk og sjúklinga. Már segir spítalann nú vinna að því að tryggja að fólk sem finnur fyrir einkennum; hósta, hita, beinverkjum eða mæði, eða hefur verið á áhættusvæðum, ráðfæri sig við göngudeildir áður en það kemur á spítalann. Sömuleiðis sé unnið að því að tryggja að starfsmenn komi ekki veikir til vinnu og gengið lengra en sóttvarnalæknir og almannavarnir hafa gengið. Þá segir hann koma til greina að taka upp dyravörslu á spítalanum. Það er að enginn komi inn á spítalann nema hafa fyrst rætt við starfsmann og greint frá erindi sínu. 

Fleiri heilbrigðisstofnanir hafa gert ráðstafanir. Stefán Yngvason, framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi, segir að þar sé nú hringt í fólk sem á að kalla inn í endurhæfingu og farið yfir spurningalista. Ef fólk er með einkenni veirunnar eða var að koma frá svæðum sem hafa verið skilgreind sem áhættusvæðum er endurhæfingu frestað um tvær vikur. Aðrar breytingar hafa ekki orðið á starfseminni en fólk er að sjálfsögðu duglegt að þvo og spritta hendur.

Mynd með færslu
 Mynd: Reykjalundur
Reykjalundur.