Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leik hætt á Englandi vegna kynþáttafordóma

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Leik hætt á Englandi vegna kynþáttafordóma

19.10.2019 - 17:48
Leikmenn enska utandeildarliðsins Harigney Borough gengu af velli í bikarleik liðsins við Yeovil í dag. Þetta gerðu þeir eftir að markvörður liðsins varð fyrir aðkasti sem byggðist á kynþáttafordómum. Áhangendur Yeovil gerðu hróp að markverðinum auk þess sem þeir eru sagðir hafa hrækt á hann og kastað flöskum að honum.

Aðeins fimm dagar eru liðnir síðan þeldökkir leikmenn enska landsliðsins urðu fyrir kynþáttafordómum áhangenda búlgarska landsliðsins í leik liðanna í Búlgaríu. Sá leikur var stöðvaður tvisvar en síðan haldið áfram. Það mál vakti mikla athygli og hafa bæði landsliðsþjálfari Búlgaríu og formaður knattspyrnusambands landsins sagt af sér.

Atvikið í dag átti sér stað í fjórðu umferð forkeppni ensku bikarkeppninnar. Liðin sem áttust við, Haringey Borough og Yeovil, keppa bæði í neðri deildum í Englandi, utan formlega deildakeppninnar. Yeovil fékk dæmda vítaspyrnu þegar um 25 mínútur voru eftir af leiknum og skoruðu úr henni. Sjónarvottar segja að hluti áhangenda Yeovil hafi þá gert sitt ítrasta til að trufla Valey Pajetat, markvörð Haringey. Hann gekk síðar til mannanna til að ræða við þá. Þaðan sneri hann aftur og virtist hafa orðið fyrir höggi að sögn sjónarvotta. Pajetat sagði síðar að hrækt hefði verið á sig hann orðið fyrir kynþáttafordómum af hálfu mannanna.

Leikmenn Haringey Borough gengu af velli og leik var hætt. Skömmu síðar gengu leikmenn beggja liða inn á völlinn, tókust í hendur og klöppuðu fyrir stuðningsmönnum.

Í færslu á Twittersíðu Haringey Borough segir leikurinn hafi verið flautaður af vegna kynþáttahaturs og síðdeginu sem leikurinn fór fram lýst sem hræðilegu. Þá er tekið fram að nær öllum stuðningsmönnum Yeovil hafi verið ofboðið. 

Stan Collymore, fyrrverandi atvinnumaður í fótbolta, hvatti breska fjölmiðla til að gera jafn mikið úr þessu atviki og atvikinu í Búlgaríu á dögunum.