Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Leiðtogar G7-ríkja ræða eldana í Amazon

26.08.2019 - 09:19
epa07792871 A handout photo made available by Greenpeace Brazil showing smoke rising from the fire at the Amazon forest in Novo Progresso in the state of Para, Brazil, 23 August 2019.  EPA-EFE/Victor Moriyama / Greenpeace Brazil HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES/NO ARCHIVES
Eldur í Amazon-regnskóginum í Novo Progresso í Para-fylki í Brasilíu um helgina. Mynd: EPA-EFE - Greenpeace Brazil
Leiðtogar G7-ríkjanna ætla að ræða um aðstoð við að slökkva eldana í regnskógum Amazon áður en fundi þeirra lýkur í Frakklandi í dag. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði í gær að samkomulag væri í sjónmáli um viðbrögð. 

Macron lagði á það áherslu í síðustu viku að leiðtogarnir ræddu eldana í Amazon-skógunum á fundi sínum í Frakklandi. Þetta væri ekki eingöngu vandi heimamanna, heldur heimsbyggðarinnar allrar. 

Macron og fleiri gagnrýndu viðbrögð Jairs Bolsonaros, forseta Brasilíu, en margir hafa sakað Brasilíuforseta um að hafa hvatt til skógeyðingar í þágu landbúnaðar. 

Bolsonaro var í fyrstu harðorður um afskipti annarra ríkja eldunum í Amazon, en hefur nú snúið við blaðinu og sent herinn til að hjálpa til við að slökkva eldana. Það verkefni er þegar hafið.

Í dag koma í ljós viðbrögð stórveldanna, en Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hét í morgun 10 milljónum punda, jafnvirði eins og hálfs milljarðs króna, til að hjálpar til í baráttunni við eldana. 

Amazon-skógarnir ná yfir fleiri ríki en Brasilíu og gær sagðist Ivan Duque, forseti Kólumbíu, ætla að leggja það til við önnur ríki á svæðinu að þau gerðu með sér sáttmála um verndun skóganna.

Hann kvaðst ætla að ræða það á fundum með leiðtogum ríkjanna í Perú í vikunni, en síðan á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Duque hvatti alþjóðasamfélagið til að veita liðsinni við að slökkva eldana.