Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leiðtogar ESB samþykktu 30 daga ferðabann

17.03.2020 - 21:57
epa08302031 German Chancellor Angela Merkel speaks during a press conference at the chancellery in Berlin, Germany, 17 March 2020. German Chancellor Angela Merkel informed about a Videoconference that took place with the Heads of State and Government of the European Union on the spread of the coronavirus SARS-CoV-2 which causes the COVID-19 disease.  EPA-EFE/CLEMENS BILAN / POOL
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, greindi frá niðurstöðunni á blaðamannafundi í dag. Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Ytri landamærum Schengen og Evrópusambandsins verður lokað fyrir ónauðsynlegum ferðalögum næstu þrjátíu daga til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónaveirunnar sem veldur COVID-19. Leiðtogar aðildarríkjanna samþykktu þetta á fundi í dag.

Forseti framkvæmdastjórnar sambandsins, Ursula von der Leyen, greindi fyrst frá þessum hugmyndum í gær. Formleg ákvörðun var svo tekin á fundi leiðtoganna í dag, sem var haldinn með fjarfundabúnaði, vegna úrbreiðslu veirunnar. Bannið gildir í 30 daga, hið minnsta.

Ýmsar undantekningar verða á ferðabanninu, til að mynda fá ríkisborgarar aðildarríkjanna að ferðast heim. Þá verður heilbrigðisstarfsfólki, sem vinnur að því að sporna við útbreiðslu veirunnar, heimilt að ferðast, sem og fólki sem þarf að ferðast landa á milli á leið til vinnu sinnar. 

Fjöldi Evrópuríkja hefur þegar lokað landamærum sínum og gripið til samkomubanns. Á Spáni og Ítalíu er útgöngubann.