Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leiðrétting á bótaskerðingu skerðir bætur

04.11.2019 - 22:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Húsnæðisstuðningur til margra örorkulífeyrisþega skerðist mikið eftir að Tryggingastofnun leiðrétti bótaskerðingu í ágúst. Leiðréttingin var reiknuð sem hluti af tekjum og voru því margir taldir of tekjuháir fyrir sérstakan húsnæðisstuðning.

Alþingi samþykkti í vor að lækka krónu á móti krónu skerðingu um 35 aura. Það þýðir að aðrar tekjur örorkulífeyrisþega skerðast ekki lengur um 100% á móti lífeyri, heldur um 65%. Breytingin var afturvirk frá 1. janúar og í ágúst endurgreiddi Tryggingastofnun þeim sem hafa orðið fyrir krónu á móti krónu skerðingu á því tímabili. Íbúðalánasjóður reiknaði endurgreiðsluna hins vegar sem hluta af tekjum í ágústmánuði og voru öryrkjar því með vitlaust reiknaðar tekjur vegna þess. Fjölmargir lenda nú í því að sérstakur húsnæðisstuðningur minnkar eða fellur alveg niður.

„Við fáum þennan húsnæðisstuðning af því að við erum með svo litlar tekjur, við erum með svo lágar bætur, og þegar þessi húsnæðisstuðningur er skertur svona mikið þá eru bara margir sem geta ekki borgað leiguna,“ segir Halldóra Eyfjörð.

Tekjugrunnurinn er reiknaður á þriggja mánaða fresti og ekki næst fyrr en um áramót. Halldóra fékk um 130 þúsund krónur í leiðréttingu hjá Tryggingastofnun í ágúst. Húsnæðisbætur hennar lækka á móti um rúmlega 20 þúsund krónur næstu þrjá mánuði og sérstakur húsnæðisstuðningur um rúmlega 33 þúsund krónur. Leiðrétting hennar verður því að rúmlega 75 þúsund krónum.

„Mér þætti eðlilegast núna að Íbúðalánasjóður myndi taka sig til og endurreikna allt saman aftur og dreifa þessu yfir þessa átta mánuði. Þannig að fólk fengi þá kannski jafnvel leiðréttingu á þessu. Og ég tala nú ekki um þó það myndi kannski ekki fá leiðréttingu í þessum mánuði, þá myndi það allavega fá í næsta því það er jólamánuðurinn. Hvers vegna fáum við einhverja smáaura í hægri vasann og hann er strax tekinn úr þeim vinstri? Bara einn, tveir og þrír.“