Leiðir fólk saman yfir kvöldverði í Borgarnesi

Mynd: Aðsend / Aðsend

Leiðir fólk saman yfir kvöldverði í Borgarnesi

20.02.2020 - 15:33

Höfundar

„Ég ætlaði bara að prófa að hóa hópi fólks saman sem vildi bara hittast og borða saman. Engin veislustjórn, ræður, leikir eða neitt. Bara borða saman,“ segir Heiðrún Helga Bjarnadóttir, sem efnir til sameiginlegs kvöldverðar í Borgarnesi einu sinni í mánuði.

Borgarnes borðar saman byrjaði í október 2018 og Heiðrún segir að verkefnið hefur rúllað áfram síðan þá. Fyrir jól komu 70 manns og síðast í janúar sóttu 100 manns kvöldverðinn.

Hugmyndina fékk Heiðrún frá Danmörku. Þar kallast þetta fællesspisning og fólk hittist innan hverfa jafnvel einu sinni í viku og borðar saman. Heiðrún segir þessa kvöldverði henta fyrir hina ýmsu hópa samfélagsins.

„Þegar ég byrjaði að skipuleggja þetta hér þá var ég með fólk eins og sjálfa mig í huga, barnafjölskyldur. En svo fann ég bara að eldra fólkinu fannst þetta æðislegt, fólk sem er nýflutt í bæinn fannst líka frábært því þetta er góð leið til að komast inn í samfélagið. Ég tala nú ekki um eins og útlendinga sem eiga erfitt með að komast inn vegna máls og annað. Þetta er einhvern veginn svo margþætt,“ segir Heiðrún.

Hún segir að yfirleitt hittist fólk vegna þess að það á börn í sama bekk, eða taka þátt í sama íþróttastarfi. Minna sé um að hittast og kynnast þvert á pólitískar skoðanir, aldur og áhugamál. Eins bjóði þetta upp á samverustund sem annars er erfitt að finna tíma fyrir í erli hversdagsins.

„Ég hugsaði með mér að mig langaði til að skapa einhvern vettvang þar sem er hægt að kippa með nágranna eða vinnufélaga eða vinafólki sem þér finnst þú aldrei hafa tíma til að bjóða heim. Þarna hittist fólk bara einfaldlega,“ segir hún.

Heiðrún gerir ekki langtímaáætlanir. Lagt er upp með að borðað sé saman einu sinni í mánuði, en tímasetning er oft ekki föst fyrr en stuttu fyrir kvöldverð.

„Ég nota ekki marga klukkutíma á mánuði. Ég fæ bara hugmynd um hvar ég myndi vilja hafa þetta næst. Hef samband við veitingastað og þeir hafa hingað til sagt já og þá fer ég að auglýsa. Þannig það er aldrei víst nema með svona tíu daga fyrirvara hvar þetta verður næst.“

Rætt var við Heiðrúnu Helgu Björnsdóttur um Borgarnes borðar saman í Sögum af landi á RÁS 1. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan og þáttinn í heild sinni hér.

Sögur af landi eru á dagskrá Rásar 1 á föstudögum kl 15:03 og endurfluttar á sunnudögum kl 13. Þáttinn má finna í spilara RÚV og öllum helstu hlaðvarpsveitum.