Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Leiðindin eru nýja gamanið“

Mynd: RÚV / RÚV

„Leiðindin eru nýja gamanið“

27.06.2017 - 16:01

Höfundar

Karl Ove Knausgård varð einn umtalaðasti og umdeildasti rithöfundur Noregs eftir að hann skrifaði sjálfsævisögu sína Min kamp, eða Baráttan mín. Gagnrýnendur hafa vakið athygli á því hve mikið hann dvelur við hversdagsleg smáatriði í verkinu – svo mjög að sagt hefur verið að hann færi leiðindi í nýjar hæðir.

Sagnabálkur Karls Ove Knausgårds, Min kamp, kom út í 6 bindum árunum 2009 til 2011 og spannar tæplega 4000 blaðsíður. Gagnrýnandi New Yorker, James Wood, sagði í umfjöllun sinni um bókina á sínum tíma að þótt honum hafi leiðst við lesturinn, þá hafi hann samt orðið forvitinn. Blaðamaður ástralska dagblaðsins The Australian gekk ívið lengra og sagði bókaröð Knausgårds hafa fært leiðindi í nýjar hæðir.

Kunna lesendur að meta að láta sér leiðast við lesturinn á þessum tíma stanslausrar örvunar?

„Ég vildi að sumir gerðu það. En ég held að þeir séu ekki í meirihluta,“ svarar Karl Ove. „Ég á fjögur börn og þau segja: Æ, mér leiðist svo. Hjálpaðu mér, mig langar að gera eitthvað. Ég reyni að sinna því: Leiðindin eru nýja gamanið. En þau hafa ekki trú á því. Það er alltaf eitthvað í gangi á skjánum eða þau leika sér eða horfa á eitthvað og það er eins og sjálft hugtakið leiði sé að hverfa. Ég held að það sé sitthvað til í slagorðinu „að gamna okkur í hel“.“

„Ég les ekki bókmenntir til að láta mér leiðast,“ segir hann. „Ef  bækur mínar eru leiðinlega þá hefur mér mistekist. En málið er að gæða efnið aðdráttarafli, að maður verði að lesa áfram og langi að vera þar. Þá leiðist manni ekki.“

Karl Ove Knausgård var staddur hér á landi á dögunum, þar sem hann tók þátt í ráðstefnunni NonFictionNow. Viðtal Höllu Þórlaugar Óskarsdóttur við hann verður sýnt á RÚV í kvöld, klukkan 20.00.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

„Skömmin er hluti af mér“

Bókmenntir

Karl Ove Knausgård kemur til Íslands

Bókmenntir

Karl Ove Knausgaard hlífir engum