Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Leiðindaveður á kosningadaginn

26.10.2016 - 12:22
Ein á ferð fyrir utan aðalbyggingu Háskóla Íslands.
 Mynd: Háskóli Íslands
Spáð er fyrir leiðindaveðri á kosningadaginn - laugardag, stífri austanátt með snjókomu norðanlands og á Vestfjörðum og slyddu eða rigningu fyrir sunnan. Færð gæti versnað á fjallvegum og tvísýnt er með innanlandsflug síðdegis.

Snjór fyrir norðan

Haraldur Eiríksson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að útlit sé fyrir vaxandi austanátt á laugardag, líklega allhvössum vindi þegar líði á daginn. „Úrkoman byrjar á sunnanverðu landinu sem slydda og svo rigning. Fyrir norðan er gert ráð fyrir að það snjói með þessu frá hádegi og fram á síðdegið. Síðan verður kominn bloti í þetta um kvöldið"

Hætta á að færð spillist

Haraldur segir að færðin geti spillst, sérstaklega á Vestfjarðarkjálka og á fjallvegum fyrir norðan, en hann vonast til að það hláni þar um kvöldið. „Þokkalegt útlit er með innanlandsflug flug fyrri part dags" segir Haraldur „en svo fer það versnandi. Það getur orðið tvísýnt með flug".                                   

Verður leiðinda rok og rigning á Suðurlandi? 

„Þetta verður dálítið svipað og verið hefur núna í haust, allhvass vindur og rigning, en ekkert óveður svo sem."

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV