Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Leið alla tíð eins og gesti í stjórnmálum

23.11.2017 - 09:54
Mynd: RÚV / RÚV
Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi ráðherra og stjórnarformaður samtakanna Women Political leaders segist ekki telja að umræða síðustu daga um áreitni og viðbrögð sem konur í stjórnmálum mæti þýði að bakslag hafi orðið í jafnréttisbaráttunni, heldur sýni umræðan að þetta sé veruleiki sem takast verði á við. Sjálfri hafi henni alltaf liðið sem gesti í stjórnmálum í heimi karla. 

Hanna Birna segir að hluti af veruleika kvenna sé endalaus áminning um það að þær séu konur, eigi að gegna ákveðnu hlutverki og vera á ákveðnum stað. Hún hafi sjálf oft sagt að sér hafi liðið eins og gesti. „Mér leið eins og karlarnir hefðu boðið í boðið og ráðið gestalistanum og skemmtiatriðunum og hvernig þetta allt átti að vera og ég fékk að vera með.“

Og var það líka þannig þegar þú varst komin lengra áfram, því þú náttúrulega náðir árangri í stjórnmálum og  varðst ráðherra á endanum og allt þetta. Var þetta bara allan tímann?

„Já, meira og minna. Ég var búin að vera borgarstjóri, ég var búin að vera oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, ég var búin að vera borgarfulltrúi í mörg ár, ég var búin að vera aðstoðarframkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, búin að vera þátttakandi í stjórnmálum í svona átján ár þegar ég ákvað að bjóða mig fram sem formaður Sjálfstæðisflokksins...þá pantaði hjá mér viðtal ungur strákur úr ungliðahreyfingu flokksins sem ég tilheyri og settist á móti mér og vildi ræða það við mig að ég þyrfti að átta mig á því hversu langt ég gæti farið.  Hann var sko sirka 25 árum yngri en ég en hann vildi  vekja athygli mína á því að menn þyrftu nú kannski að setjast niður og velta því fyrir sér hversu bratt þeir gætu gengið upp þennan stiga. Ég er ekki viss um að hann hefði tekið slíkt samtal við 45 ára gamlan karl.“ 

annakj's picture
Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV