Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Leggur til gjafsókn í heimilisofbeldismálum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þolendur í heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamálum geta fengið gjafsókn þegar þeir höfða einkamál, verði þingmál Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, samþykkt. Hann hefur lagt málið fram og því verður dreift á Alþingi í dag. Þingmenn úr öllum flokkum, að einum undanskildum, standa að málinu.

Nokkrir þolendur hafa bent á það opinberlega að undanförnu að til að fá gjafsókn þurfi fólk að vera með minna en 300.000 krónur í mánaðarlaun, sem sé langt undir meðallaunum. Viðmiðið var lægra en hefur nýlega verið hækkað. „Efnahagur fólks eða fjölskyldu á ekki að ráða því hvort hægt sé að sækja sér einkaréttarkröfur í heimilisofbeldis- og kynferðisbrotamálum,“ segir Ágúst Ólafur. Fólk getur þurft að höfða einkamál þegar sakamál eru felld niður á rannsóknarstigi af ýmsum ástæðum, svo sem vegna mistaka lögreglu, sannanir eru ekki taldar nægar eða þegar sýknað er í sakamáli, segir hann. „Við þessar aðstæður kann að vera hægt að fara í einkamál til að fá einkaréttarlegum kröfum framgengt enda eru sönnunarkröfur þar minni en í sakamáli og þá kæmi þetta gjafsóknarúrræði til sögunnar.“

Hægt er að fá gjafsókn í ákveðnum tegundum mála í dag. Til dæmis í úrskurðum óbyggðanefndar um þjóðlendur og í vinnudeilum fyrir Félagsdómi. „Í Svíþjóð er gjafsókn veitt vegna kynferðisbrotamála og í Noregi eiga brotaþolar í ofbeldismálum möguleika á að fá gjafsókn,“ segir hann. Mál um gjafsókn þolenda í kynferðisofbeldis- og heimilisofbeldismálum hefur ekki áður verið lagt fyrir Alþingi.