Leggst gegn lyfjasölu í almennum verslunum

18.11.2019 - 07:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Embætti landlæknis leggst gegn lyfjasölu í verslunum og þeim breytingum á lyfjalögum sem lagt er til að gerðar verði samkvæmt frumvarpi þriggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Frumvarpið, sem lagt er fram af Unni Brá Konráðsdóttur, Óla Birni Kárasyni og Bryndísi Haraldsdóttur, er ætlað að auka frelsi í sölu lausasölulyfja eins og vægra verkjalyfja og ofnæmislyfja, í verslunum.

Í frumvarpinu er lagt til að Lyfjastofnun verði heimilt að veita undaþágu frá lyfjalögum, og leyfa með ákveðnum kvöðum og skilyrðum, sölu á vægum verkjalyfjum, ofnæmislyfjum og magalyfjum, sem dæmi, í almennum verslunum. Slík lagabreyting ætti að auka samkeppni og lækka verð til neytenda að mati þingmannanna.

Embætti landlæknis gerir alvarlegar athugasemdir við hugmyndir um að veita Lyfjastofnun heimild til að veita undanþágu til sölu tiltekinna lausasölulyfja í almennri verslun og mælir gegn því að frumvarpið verði að lögum. Með frumvarpinu væri verið að gera lyf að enn almennari verslunarvöru en nú er. 

„Öll lyf hafa bæði verkanir og aukaverkanir sem nauðsynlegt sé að seljandi hafi þekkingu á. Að slík þekking sé fyrir hendi sé nú tryggt með skilyrðum í gildandi lögum, en þar segir að þeir einir hafi leyfi til lyfjasölu sem hlotið hafi leyfi að skilyrðum uppfylltum. Að mati landlæknis er hér um nauðsynlegt öryggisatriði að ræða fyrir þá sem þurfa á lyfjum að halda. Enn fremur vill embættið vekja athygli á því að Íslendingar nota meira af ákveðnum lyfjum, sérstaklega tauga- og geðlyfjum, en nágrannaþjóðirnar og því telur embættið að almennt þurfi að auka aga og virðingu fyrir lyfjum og valda alla umgengni um þau og ráðstöfun,“ segir í umsögn embættisins.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi