Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leggja til langlengstu veggöng á Íslandi

09.08.2019 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Nefnd á vegum samgönguráðherra, sem átti að meta mismunandi leiðir til að tengja Seyðisfjörð við aðrar byggðir á Austurlandi með jarðgöngum, leggur til að byrjað verði á að grafa göng undir Fjarðarheiði, milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða. Þetta herma heimildir fréttastofu.

Ráðherra ætlar að kynna skýrslu nefndarinnar á miðvikudaginn í næstu viku. Samkvæmt heimildum fréttastofu leggur nefndin til við ráðherra að fyrst verði grafin göng beint frá Seyðisfirði til Egilsstaða sem yrðu langlengstu veggöng á landinu, 13,5 kílómetrar, og myndu kosta 25 milljarða króna, samkvæmt samgönguáætlun.

Síðar væri svo hægt að grafa göng frá Seyðisfirði suður til Mjóafjarðar, og svo þriðju göngin frá Mjóafirði áfram suður til Norðfjarðar. Með slíkri jarðgangatengingu yrði hægt að keyra um nánast alla Austfirði án þess að þurfa nokkurn tímann að fara um heiði.

Núverandi vegur milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar, sem liggur um Fjarðarheiði, er einn hæsti þjóðvegur landsins, nær upp í rúmlega 600 metra hæð, og þar spillist færð oft á vetrum.

Með tillögu sinni setur nefndin tengingu um Fjarðarheiðargöng framar öðrum möguleika á jarðgangatengingu á Austurlandi en í þeirri tillögu er gert ráð fyrir að ekki yrðu grafin göng undir Fjarðarheiði. Í staðinn yrðu gerð göng frá Seyðisfirði suður til Mjóafjarðar, og síðan önnur göng frá Mjóafirði í átt til Egilsstaða. Fyrir þá sem ætla að fara milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða yrði sú leið lengri en leiðin um Fjarðarheiðargöng. Í báðum tillögum er gert ráð fyrir göngum frá Mjóafirði áfram suður til Norðfjarðar.

Seyðfirðingar hafa nú hafið undirskriftasöfnun til að krefjast þess að grefti Fjarðarheiðarganga verði flýtt í samgönguáætlun. Fólk á vegum íþróttafélaganna á Seyðisfirði og Egilsstöðum ætlar á næstu dögum að ganga í hús á Seyðisfirði, á Egilsstöðum og í Fellabæ og safna undirskriftum við áskorun bæjarstjórnar Seyðisfjarðar.

„Við gerum kröfu um það að vetrareinangrun íbúa Seyðisfjarðarkaupstaðar verði rofin,“ segir í áskoruninni. „Að öryggi ferðalanga sem og íbúa á Austurlandi verði tryggt með jarðgöngum undir Fjarðarheiði. Einnig að samgöngur til Evrópu um Fjarðarheiði á leið úr landi með Norrænu verði gerðar öruggari með gerð jarðganga.“

Samgönguráðuneytið vildi ekki afhenda fréttastofu skýrslu nefndarinnar strax. Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra vildi aðspurður ekki tjá sig um niðurstöðu nefndarinnar fyrr en hann hefði kynnt hana heimamönnum.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV