Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leggja til inntökupróf eða fjöldatakmarkanir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ef Ísland á að standast norrænan samanburð þarf að auka aðgangsstýringu í háskólum landsins. Þetta er mat Samtaka atvinnulífsins. Rektor Háskóla Íslands segir að vandamálið sé undirfjármögnun og það verði ekki bætt með aðgangsstýringu.

 

Samtök atvinnulífsins kynntu í dag skýrslu sína um áherslur í menntamálum til framtíðar. Fréttastofa sagði frá því fyrir helgi að samtökin leggja það til að grunnskólanám verði stytt um eitt ár og að stjórnvöld tryggi leikskólapláss um leið og fæðingarorlofi lýkur.

Önnur tillaga í þessari skýrslu er að tekin verði upp aðgangsstýring í háskólum landsins, til dæmis með inntökuprófi og/eða fjöldatakmörkunum. Háskólar glími við þann vanda að fjármagn þeirra ráðist fyrst og fremst af fjölda nemenda en framlög fyrir hvern nemanda hafa ekki aukist þrátt fyrir aukin útgjöld til málaflokksins.

 „Við erum að líta til reynslu í Evrópu og á Norðurlöndunum. Ísland er eina Norðurlandið sem er í raun og veru með galopna háskóla. Öll hin Norðurlöndin eru með aðgangsstýringar og vel flest Evrópulönd. Við erum eitt af sex Evrópulöndum sem eru með opna háskóla,“ segir Davíð Þorláksson, forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins.

Þurfa að taka ákvörðun um námsleið fyrr

Bent er á að árið 2011 hafi hagfræðideild Háskóla Íslands tekið tímabundið upp almennt inntökupróf. Niðurstaðan hafi verið sú að útskrifuðum nemendum fækkaði ekki þótt innrituðum nemendum fækkaði. Með þessu móti megi nýta það fé sem rennur til háskólanna betur.  „Valið er alveg jafn mikið en fólk þarf að taka ákvörðunina fyrr. Það er eiginlega alveg einstakt á Norðurlöndum hvernig staðan er í Háskóla Íslands, hvað fólk er að flakka mikið á milli greina, margir eru óvirkir í námi. Tíma kennara og nemenda er ekki vel varið með þeim hætti,“ segir Davíð.

Ekki lausnin að fækka nemendum

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, hefur efasemdir um aðgangsstýringu. Bendir hann á að stutt sé í það markmið stjórnvalda að hlutfall háskólamenntaðra verði það sama hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum, og það náist ekki með því að fækka nemendum. Hann segir brottfall ekki sérstakt vandamál, virknin hér sé rúmlega 70 prósent, en 80 prósent annars staðar á Norðurlöndum.  „Ef við höfum það inn í kerfinu að nemendur fái að velja það sem þá langar til eða prófa eða eitthvað þess háttar, þá er það jákvætt. Hins vegar gerir það alla áætlanagerð erfiðari. Svo það er bara ágætt að velta þessu fyrir sér en ég myndi segja að virknin sé ekkert svo slæm.“

Jón Atli segir skilvirkni þess fjármagns sem fer inn í háskólann góða, vandinn sé undirfjármögnun og að því leyti geti Ísland ekki verið hálfdrættingar á við önnur Norðurlönd. Þá hefur hann efasemdir um að almenn inntökupróf skili tilætluðum árangri. „Það þyrfti að hafa samræmt stúdentspróf með A-prófinu til þess að það gæti virkað. Það er til dæmis það sem Svíar nota, samræmt stúdentspróf. En við erum ekki með það og það er mjög erfitt að velja nemendur bara á einhverju svona getuprófi inn í ákveðnar greinar.“