Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leggja til að veiðiaðferðir taki mið af velferð dýra

02.01.2020 - 10:13
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Stefánsson - RÚV/Landinn
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur hafið vinnu við endurskoðun laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og rennur umsagnafrestur við áform um frumvarpið út í dag. Meðal þess sem stefnt er að samkvæmt áformunum er að veiðiaðferðir taki mið af velferð villtra dýra.

Í samráðsgátt stjórnvalda segir að við endurskoðun laganna verði skýrsla nefndar um lagalega stöðu villtra fugla og villtra spendýra, sem skipuð var af umhverfisráðherra fyrir nokkrum árum, meðal þess sem haft verði til hliðsjónar. Hún hafi verið skipuð mörgum sérfræðingum og fulltrúum ýmissa stofnana og samtaka sem hafa látið sig þessi mál varða. Nefndin skilaði skýrslu um lagalega og stjórnsýslulega stöðu villtra fugla og spendýr 2013. Í samráðsgáttinni segir að það hafi að mestu leyti verið samstaða meðal þeirra fjölmörgu sem unnu að skýrslunni um tillögur til breytinga á umgjörð þessara mála.

Vilja að náttúran fái að þróast eftir eigin lögmálum

Í áformum um frumvarpið segir að lögð sé áhersla á að náttúran fái að þróast eftir eigin lögmálum eins og kostur er og að tryggja skuli nauðsynlega vernd villtra dýra og búsvæða þeirra. Þá er stefnt að því að aflétting friðunar og leyfi til nytjaveiða byggi á handbærum gögnum, að veiðiaðferðir taki mið af velferð villtra dýra og að fyrir hendi sé virk veiðistjórnun og veiðieftirlit. 

Nýjar skuldbindingar Íslands

Nýgildandi lög eru síðan 1994 og segir í samráðsgáttinni að síðan hafi margvíslegar breytingar orðið, svo sem aukin áhersla á umhverfis- og loftslagsmál, dýravelferð og nýjar skuldbindingar landsins á grundvelli alþjóðasamninga auk ýmissa sjónarmiða er varða virka stjórnun og stýringu á veiðum villtra dýra. Þá segir að jafnframt sé þörf á að huga betur að því að skýra frekar verkaskiptingu og ábyrgð einstakra stofnana ríkisins á tilteknum þáttum við framkvæmd laganna, einfalda núverandi veiðikortakerfi og koma á virku veiðieftirliti.

Ein umsögn hefur borist

Ein umsögn hefur borist og er hún frá Fuglaverndarfélagi Íslands. Fuglavernd fagnar endurskoðun laganna en ítrekar nauðsyn þess að farið verði að fullu eftir tillögum nefndar fyrrverandi ráðherra um lagalega stöðu villtra fugla og spendýra. Þar hafi farið fram ítarleg rýnivinna og víðtækt samráð við fjölmarga hagsmunaaðila og sérfræðinga.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir